Frá Palestínu til Keflavíkur

Göngugarpurinn og lögreglumaðurinn Sigvaldi Arnar Lárusson er maður ársins á Suðurnesjum 2015 en þetta er í tuttugasta og sjötta sinn sem Víkurfréttir standa að þessari útnefningu. Víkurfréttir stóðu að valinu í fyrsta sinn árið 1990 og völdu þá Dagbjart Einarsson, útgerðarmann og bónda úr Grindavík, sem mann ársins á Suðurnesjum.

Sigvaldi er svo sannarlega maður fólksins, Keflvíkingur í húð og hár og lögreglumaður á Suðurnesjum. Uppátæki hans að ganga frá Keflavík til Hofsóss vakti landsathygli en hann nýtti sér meðbyrinn sem hann fékk í því og efndi til styrktarsöfnunar í leiðinni. Alls söfnuðust á þriðju milljón sem hann afhenti Umhyggju, styrktarfélagi langveikra barna. Sú upphæð hækkaði um nokkur hundruð þúsund krónur eftir að Sigvaldi stóð fyrir kótilettukvöldi síðla árs. Hann segir í viðtali við Víkurfréttir að hann útiloki ekki að standa að annarri uppákomu en þó líklega ekki á þessu ári. Það er skemmtilegt að fylgjast með fólki eins og Sigvalda gera svona og sýna samfélagslega ábyrgð. Hann er virkilega góð fyrirmynd.

Sigvaldi var einnig í sviðsljósinu í lögreglubúningnum. Þegar lögreglumenn björguðu fjórfætlingum nokkrum sinnum á árinu var okkar maður oftast í framlínunni. Hann segir lögreglustarfið fjölbreytt og skemmtilegt en fólk sé ekki í því vegna launanna en Sigvaldi lét einnig til sín taka á vettvangi baráttu fyrir bættum kjörum lögreglumana á árinu.

Þetta er eins og fyrr segir í tuttugasta og sjötta sinn sem við veljum Suðurnesjamann ársins. Það er áhugavert að skoða listann sem er ansi fjölbreyttur. Við vorum þó greinilega með atvinnulífið ofarlega á listanum fyrsta áratuginn en þá voru átta af tíu fólk þaðan, ein kona og sjö karlar. Tveir af fyrstu tíu voru prestar, þeir Hjörtur Magni Jóhannsson og Sigfús Ingvason en þeir þóttu leysa afar vel mjög erfið verkefni þessi ár. Þetta hefur verið meira bland í poka síðustu fimmtán árin, tónlistarfólk, frumkvöðlar og íþróttamenn. Óhætt er að segja að tímamót hafi verið á síðasta ári þegar við kusum Fidu Abu Libdeh, unga konu sem er fædd og uppalin í Palestínu, en er orðinn góður þegn á Íslandi og reyndar gott betur. Hún er nefnilega frumkvöðull og stofnaði fyrirtæki í nýsköpun eftir nám hjá háskólasamfélaginu Keili á Ásbrú. Fida er á blússandi siglingu eins og reyndar fleiri af listanum. Af nýlegum mönnum ársins eru nokkrir þeirra á fleygiferð, meðal annarra tónlistarfólkið Nanna og Brynjar úr Of Monsters and Men og Axel Jónsson í Skólamat.

Flest finnum við fyrir meiri jákvæðni og bjartsýni á Suðurnesjum og það kemur nokkuð skýrt fram í viðtölum við átta einstaklinga sem við sýnum í sjónvarpsþætti vikunnar. Við á Víkurfréttum ætlum að vera á jákvæðum nótum og sendum lesendum og áhorfendum okkar bestu óskir um gleðilegt ár með bestu þökkum fyrir liðin ár.

Páll Ketilsson
ritstjóri