Fjör að færast í bæjarpólitíkina

Nú er ljóst að sex framboð verða í boði fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjanesbæ. Nokkur hreyfing virðist vera í þessum málum því fyrir síðustu kosningar voru framboðin fjögur. Nú eru sjö vikur til kosninga og má því ætla að fjör fari að færast í leikinn. Þó er staðan misjöfn hjá framboðunum. Sum eru þegar komin á fullt með málefnavinnu á meðan önnur hafa ekki lokið gerð framboðslista en hafa rétt klárað það. Spennandi verður að sjá hvað verður helst í umræðunni; hvað verður í forgangi hjá flokkunum.

Samfylkingin hefur t.d. rætt um breyttar áherslur í rekstri bæjarfélagins og vill leggja meiri áherslu á að fjárfesta í fólki frekar en steypu. Gunnar Þórarinsson, fyrrverandi liðsmaður Sjálfstæðisflokksins þar sem hann var bæði forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs á þessu kjörtímabili, leiðir „Frjálst afl“ segir í viðtali í Víkurfréttum að nýja framboðið muni standa fyrir meiri aga í fjármálum bæjarins. Lítið hefur heyrst frá Framsóknarfólki en þar er fyrir nokkru kominn fléttulisti sem Framarar binda vonir við. Stóri flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur verið með hreinan meirihluta í þrjú kjörtímabil er eitthvað laskaður eftir uppákomuna með Gunnar Þórarinsson sem fór út en segist ekki vera í fýlu. Hvað Sjálfstæðismenn munu leggja áherslu á er erfitt að ímynda sér en þeir hafa verið duglegir að undanförnu í stórum málum, með nýrri Hljómahöll, nýju hjúkrunarheimili og framgangi í skólamálum, svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur fréttum um ný fyrirtæki í Helguvík fjölgað að undanförnu. Umræðan hefur á köflum verið þeim erfið, aðallega vegna fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar sem aðrir hafa gagnrýnt en Sjallar hafa reynt að að verjast henni.

Það vekur nokkra athygli að þrír flokkar eru áfram með sömu oddvita og nýtt framboð, „Bein leið“, skartar fyrrverandi bæjarfulltrúanum Guðbrandi Einarssyni. Allir flokkar vilja hafa konur en það gengur misvel að ná þeim í bæjarpólitíkina. Þær eru þó á listunum en hvergi er kona í efsta sæti. Kolbrún Pétursdóttir, þriðja á lista framboðsins, skrifar skemmtilegan pistil í Víkurfréttir nýlega, um hvernig það sé að vera farin í pólitík. „Það sem mig langar hins vegar að gera öðru fremur er að vera heiðarleg, vinna vel, sýna auðmýkt og geta viðurkennt að ég kann ekki allt og á örugglega eftir að gera mistök. En það hljómar bara leiðinlega,“ segir hún.

Það er nefnilega málið. Að skella sér í pólitík er meira en að segja það. Það fylgir því nokkur ábyrgð og mannfólkið sem er í kring er duglegt að gagnrýna þá sem gefa sig í þetta. Það eru ekki allir sem þola það, eðlilega, því allir eru jú að reyna sitt besta. Höfum það í huga, nú þegar bæjarpólitíkin er að fara á fullt.

Páll Ketilsson, ritstjóri.