Fjör á fasteignamarkaði

„Þetta er búið að gerast ótrúlega hratt. Ég sé eiginlega mest eftir því að á þeim tíma sem var verið að skera niður, að þá höfum við ekki verið að skipuleggja á fullu fyrir svona tíð. Það átti enginn von á þessari svakalegu uppsveiflu sem við erum í núna. Þetta kemur allt í bylgjum en þetta virðist vera heilbrigðara núna,“ segir Guðlaugur Helgi Sigurjónsson sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar sem segir feikilegan uppgang í bæjarfélaginu og mikil ásókn sé í lausar lóðir.

Fasteignasalar sem VF ræddi við eru á sama máli varðandi fasteignamarkaðinn, hann sé á fleygiferð. Þá sé fólk á höfuðborgarsvæðinu búið að uppgötva Suðurnesin sem hagstæðan kost, þar sé lægra fasteignaverð en mjög góð þjónusta á flestum sviðum, til dæmis skólum og leikskólum og síðast en ekki síst, hér sé næga atvinnu að hafa.

Já, það kannast flestir við magnaðan uppgang á Suðurnesjum að undanförnu. Fjörið hófst fyrir um það bil þremur árum en mestu lætin hafa verið síðustu eitt til tvö ár. „Suðurnes eru mesti vaxtarsproti Íslands um þessar mundir og fólk mun flykkjast hingað frá höfuðborginni,“ segir fasteignasali um stöðuna. Og það er sama hvert litið er á Suðurnesjum, þetta er ekki bara staðan í Reykjanesbæ heldur er svipað uppi á teningnum í nágrannasveitarfélögunum. Fyrir tæpum tveimur árum funduðu fulltrúar Garðs og Sandgerðis með Íbúðalánasjóði vegna fjölda tómra íbúða í sveitarfélögunum. Í dag er búið í öllum íbúðum og skortur á eignum. Sama má segja um Reykjanesbæ og tómar íbúðir. Þær eru allar nýttar, þrátt fyrir fjölda eigna á Ásbrú sem hafa komið inn á leigumarkaðinn. Nú vilja margir reyna að kaupa í stað þess að leigja því leigumarkaðurinn hafi hækkað mikið og eins sé um þessar mundir lítið sem ekkert framboð af leiguhúsnæði.

Bankarnir hafa fundið fyrir stöðunni en segja fasteignakaupendur skoða betur lánamálin en í góðærinu fyrir um áratug. Verktakar eru komnir í framkvæmdagír og framundan má búast við fjöri í þeim geira. Nýlega var úthlutað landssvæði á svokölluðu Nikkel-svæði í Reykjanesbæ en þar er gert ráð fyrir nærri 500 íbúðum. Þá eru aðilar að fara af stað með stór fjölbýlishús við Pósthússtræti í Reykjanesbæ, við gömlu sundhöllina og á fleiri stöðum. Svo eru að koma inn á markaðinn nærri 500 íbúðir á Ásbrú, flestar til leigu en einnig til sölu.
Það má því búast við áframhaldandi fjöri á fasteignamarkaði. Fasteignasali segir Suðurnesin áfram heit: „Já, við erum flottasta stelpan á ballinu,“ sagði hann.
Í blaði og sjónvarpsþætti vikunnar erum við með ítarlega umfjöllun um fasteignamarkaðinn.