Fjandi fín framtíðarmúsík

Hvernig ætli Suðurnesjamönnum lítist á að vera hluti af sveitarfélaginu Suðurnesi. Er það eitthvað sem gæti orðið veruleiki innan fárra ára? Öflugt sveitarfélag með á milli 20 og 30 þúsund íbúa. Í dag væru þeir um 22 þúsund. Við fórum inn á þessa braut í síðustu forystugrein VF og höfum ekki leynt þessari skoðun okkar að sameining helst allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum ætti að vera brýnt verkefni og klárast á næstu 5-10 árum.

Verkefni og skyldur sveitarfélaga hafa breyst mikið á undanförnum árum, svo mikið að minni sveitarfélög eru flest í vandræðum með að uppfylla skyldur sínar í nokkrum málaflokkum. Félagsþjónusta, skólamál, málefni fatlaðra og fleiri mál hafa vaxið mikið á síðustu tveimur áratugum. Það er því deginum ljósara að því sem sveitarfélagið er stærra er auðveldara að sinna þessum málaflokkum.

Aðstæður á Suðurnesjum hafa líka breyst mikið og eins og bæjarstjóri Reykjanesbæjar bendir á í grein sinni á vf.is fyrir nokkru, má segja að sveitarfélögin fimm á Suðurnesjum, Reykjanesbær, Grindavík, Garður, Sandgerði og Vogar, sinni öðrum hlutverkum eftir brottför Varnarliðsins. Sjávarútvegur kemur þó við sögu í þeim öllum en þó á margvíslegan hátt, síst þó í Reykjanesbæ þar sem flugtengd starfsemi og þjónusta við ferðamenn eru stærsti vinnuveitandinn núna. Einnig hefur nýsköpun og margvísleg starfsemi eins og skólar og gagnaver eflst mikið á Ásbrú sem er hluti af Reykjanesbæ. Fyrir brottför Varnarliðsins var Bandaríkjaher stærsti vinnuveitandinn á Suðurnesjum og var líka góður „leigjandi“ sem keypti margvíslega þjónustu af fyrirtækjum, einstaklingum og stofnunum á svæðinu. Fyrir nokkrum áratugum fóru miklu fleiri Suðurnesjamenn í vinnu hjá hernum en að fara í frekara nám eftir grunnskóla eða framhaldsskóla. Herinn greiddi vel og var góður vinnuveitandi. En svo fór hann og samfélagið á Suðurnesjum hefur verið að aðlaga sig að breyttum aðstæðum eftir það. Það gekk ágætlega í nokkra mánuði í lok ofur góðæris en varð mjög erfitt nokkru síðar, þegar bankahrun varð. En okkur var bjargað ef svo má segja af útlendingum, erlenda ferðamanninum. Við höfum notið góðs af magnaðri þróun í ferðaþjónustu, nýjasta gullegginu. Suðurnesjamenn eru jú næstu nágrannar Keflavíkurflugvallar og flugstöðvarinnar. Sveitarfélögin hafa þannig sameinast óbeint á margan hátt í ferðaþjónustu, ásamt því að sinna verslun og annarri þjónustu. En þau þurfa öll að þjónusta bæjarbúa sína sem vilja fá margþætta þjónustu. Það gengur misvel og myndi örugglega ganga betur í stærra sveitarfélagi.

Í frétt okkar á forsíðu Víkurfrétta í þessari viku greinum við frá því að ónefndur áhugahópur sem góðir Suðurnesjamenn skipa hafa velt fyrir sér leiðum sem stuðlað gætu að auknum lífsgæðum á Suðurnesjum og eflt svæðið til framtíðar. Í hópnum eru auk Skúla Skúlasonar hjá Kaupfélagi Suðurnesja, einu öflugasta fyrirtæki á svæðinu, þau Guðfinna Bjarnadóttir, Margrét Sanders og Pétur Pálsson. Þær stöllur eru þjóðþekktar fyrir sín störf en Pétur er í forsvari fyrir einu öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins í Grindavík. Hann hefur ekki leynt þeirri skoðun sinni að sameinað sveitarfélag á Suðurnesjum væri eitthvað sem ætti að skoða mjög alvarlega fyrr en seinna og að Grindavík ætti heima í þeim pakka. Það þykja vissulega tíðindi þegar slíkt heyrist frá Grindavík.

Nú bíðum við bara og sjáum hvað kemur út úr greiningu Keilisnemenda á Ásbrú og vonum að við Suðurnesjamenn stöndum saman að því að gleyma hrepparíg og tilfinningum í þeim pælingum, sem og að fjármál sveitarfélaganna spilli ekki fyrir þessari framtíðarmúsík sem hljómar svo fjandi vel í eyrum.

Páll Ketilsson
ritstjóri