Fasteignamarkaður og samfélagsleg ábyrgð

Fasteignamarkaðurinn á Suðurnesjum er að komast í eðlilegt jafnvægi en fyrir nokkru var greint frá því að fasteignaverð hafi hækkað minnst á Suðurnesjum eftir bankahrun. Guðlaugur H. Guðlaugsson fasteignasali segir skýringuna var þá að Íbúðalánasjóður og fjármálastofnanir hafi átt svo stórt hlutfall eigna á svæðinu. Þeir aðilar hafi stýrt verðgildi fasteignanna og á tímabili hafi framboðið verið miklu meira en nokkurn tíma eftirspurn.

Guðlaugur segir að verðið hafi farið hækkandi að undanförnu með aukinni eftirspurn. Nú sé farið að slást um raðhús og nýlegar íbúðir. Þetta eru góðar fréttir fyrir Suðurnesjamenn en mikilvægt er að jafnvægi sé í þessum málum. Verulegar líkur er hins vegar á uppsveiflu hér á fasteignamarkaðnum í ljósi mikillar eftirspurnar eftir starfsfólki í flugstöðinni og í Helguvík. Það hefur varla farið hamar á loft í nýbyggingum á Suðurnesjum eftir hrunið og ástandið hefur verið mjög sérstakt m.a. í ljósi þess að stærstu eigendur fasteigna sem voru tómar um allt, voru í eigu Íbúðalánasjóðs og bankastofnana. Með hækkandi fasteignaverði vakna byggingaverktakar kannski af værum blundi og byggingakranar fara kannski að sjást aftur annars staðar en í Helguvík.

Þetta helst allt í hendur við uppsveiflu á Suðurnesjum sem þó hefur komið mest frá ferðaþjónustunni en er núna einnig framundan vegna Helguvíkur. Það er skrýtið hvernig hlutirnir þróast því hörð barátta hefur verið í atvinnumálum en nú er viðsnúningurinn orðinn mjög mikill og stóra verkefnið að manna allar lausar stöður. Við heyrum í eigendum Airport Associates á Keflavíkurflugvelli en fyrirtækið er með stærstu fyrirækjunum þar. Eigandi þess segir að heildaraukning á starfsmannaþörf allra fyrirtækja á Keflavíkurflugvelli verði umfram það sem Suðurnesin nái að brúa og því verði að mæta með ýmsum hætti, m.a. rútuferðum til og frá höfuðborgarsvæðinu.

Varðandi aukninguna eða gullgrafaræðið eins og sumir kalla það, í ferðaþjónustunni, hefur VF það eftir ábyrgum aðila í verkalýðshreyfingunni að nokkuð vanti upp á í að réttindum starfsfólks sé fullnægt, sumir atvinnurekendur standi sig afar illa í því, greiði ekki rétt laun eða launatengd gjöld og útbúi ekki launamiða. Þetta eigi sérstaklega við um nýlega aðila í atvinnulífinu. Það eru slæmar fréttir ef svona lagað er virkilega að gerast. Samfélagsleg ábyrgð er vítt hugtak en nær til þessa þáttar en einnig margra annarra. Það er ekki að ástæðulausu að bæjarstjórinn í Reykjanesbæ taldi sig knúinn að fjalla um skattaskil. Mikilvægt er að allir sinni þessari ábyrgð nú þegar við erum að byggja upp samfélag eftir bankahrun.

Páll Ketilsson
ritstjóri VF.