Fær Suðurnesjabær uppreist æru?

„Hvenær fáum við Suðurnesjabæinn?,“ skrifaði Ólafur heitinn Sigurðsson, verkstjóri hjá áhaldahúsi Gerðahrepps í grein í Víkurfréttum 26. apríl árið 1990. Þetta er í fyrsta skipti sem orðið Suðurnesjabær kemur fram þegar stuðst er við leit á timarit.is. Fjórum árum síðar var sameinuðust Keflavík, Njarðvík og Hafnir. Ráðist var í kosningu um nafn á sameinað sveitarfélag og fékk Suðurnesjabær flest atkvæði eftir að yfir helmingur atkvæða í kosningunni hafði verið dæmdur ógildur þar sem nafnið Keflavíkurbær hafði verið skrifað á kjörseðilinn. Nafnið  Reykjanesbær fékk svo næst flest atkvæði í kosningunni. Fimm nöfn voru á kjörseðlinum, Suðurnesjabær, Reykjanesbær, Hafnavíkurbær, Nesbær og Fitjabær. Sameinað sveitarfélag Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna hét sem sagt Suðurnesjabær þegar kosið var til fyrstu bæjarstjórnar í sveitarfélaginu. Síðan fór allt á annan endann í nafnamálinu svokallaða. Félagsmálaráðuneytið gerði síðar athugasemd við kosninguna um nafnið og tekist var á um nafn sameinaðs sveitarfélags og síðar var það afgreitt á fundi bæjarstjórnar að Reykjanesbær yrði nafn sameinaðs sveitarfélags í kjölfar kosningar þar sem Reykjanesbær fékk 55% atkvæða og Suðurnesjabær 45%, að því segir í frétt Víkurfrétta frá árinu 1994. Fjölmargir bæjarbúar mættu utan við bæjarskrifstofurnar og þeyttu bílflautur í mótmælaskyni við hið nýja nafn. Pú-að var á bæjarfulltrúa á bæjarstjórnarfundinum og þeir hvattir til að segja af sér en tillagan um nafnið Reykjanesbær var samþykkt með níu atkvæðum gegn tveimur.

Síðan þetta var eru liðnir rúmir tveir áratugir. Núna á Suðurnesjabær möguleika á uppreist æru. Nafnið sem fyrsta sameinaða sveitarfélagið á Suðurnesjum skartaði í nokkra mánuði er komið fram að nýju. Rykið hefur verið blásið af þessu hljómfagra nafni, enda mun oftar talað um Suðurnesjamenn en Reyknesinga, svo dæmi sé tekið. Kannski á að geyma nafnið þar til öll sveitarfélögin á Suðurnesjum sameinast? Nú liggur fyrir að íbúar í Sandgerði og Garði þurfa að finna nýtt nafn á sameinað sveitarfélag. Þó svo byggðakjarnarnir heiti áfram Sandgerði og Garður þá þarf stjórnsýslan að fá nafn. Verður það Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Suðurnes, Miðnesbær, Suðvesturbyggð, Rosmhvalanesbyggð, Sveitarfélagið Tá eða bara Sveitarfélagið Sandgerði og Garður? Á næstu vikum mun nafnið örugglega koma fram. Það verður spennandi að fylgjast með!

Hilmar Bragi Bárðarson