Erum við tilbúin?

Hvernig ætlum við að taka á móti vinnuafli sem mun að mestu leyti koma frá útlöndum á næstu árum?

Ekki eru nema 3-4 ár síðan að ristjórnarpistlar VF fjölluðu mikið um atvinnuleysi og hvernig mætti ráða bót á því. Í dag er öldin önnur. Á stuttum tíma hefur ástandið gjörbreyst og nú er komin ný áskorun og hún er í stærri kantinum. Hvernig ætlum við að taka á móti vinnuafli sem mun að mestu leyti koma frá útlöndum á næstu árum. Erum við tilbúin? Núna er um fimmtungur íbúa á Suðurnesjum af erlendu bergi brotnir.

Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja boðaði til málþings í lok vikunnar um um vöxt á Suðurnesjum í bráð og lengd. Hver er framtíðarsýn sveitarfélaganna um vöxt og fólksfjölgun á svæðinu til skemmri og lengri tíma? Til hvaða aðgerða þurfa sveitarfélögin og ríkið að grípa? Fulltrúar fyrirtækja, stjórnvalda og aðila sem gegna lykilhlutverki við ákvarðanatöku um skipulag og þróun íbúðabyggðar mun fjalla um málið. Og því mun ekki ljúka á þessu málþingi. Langt frá því. Þetta er eitt stærsta verkefni samfélagsins á næstu misserum.

Í spám Isavia mun störfum fjölga um 400-500 á næstu árum. Margir kinka kolli við þessa spá og segja jákvætt hvað allt sé í syngjandi góðri sveiflu á Suðurnesjum. En málið er flóknara en svo þó svo sumir myndu jafnvel kalla þetta lúxusvandamál. Við á Víkurfréttum höfum að undanförnu hitt forráðamenn fyrirtækja á Suðurnesjum sem hafa marga útlendinga í vinnu og í sumum tilfellum er meirihlutinn útlendingar. Við ræddum líka við nokkra starfsmenn sem koma flestir frá Póllandi en líka annars staðar frá. Lang stærstu atriðin hjá útlendingunum sem margir hafa komið sér vel fyrir á Suðurnesjum, eru húsnæðismálin. Ekki aðeins er húsaleiga há heldur er mikil vöntun á húsnæði. Án efa stærsta málið í þessu verkefni. Það eru fleiri mál sem þeir nefna eins og vöntun á afþreyingu og að samgöngur mættu vera betri.

Forráðamenn fyrirtækjanna eru mjög ánægðir með starfsfólkið þó svo það tali ekki íslensku nema í fáum tilfellum. Það mætti vissulega vera hærra hlutfall sem það gerði en margir geti bjargað sér á ensku, sumir skilja þó lítið sem ekkert. Fólkið er að sögn fyrirtækjanna mjög vinnusamt og vilji í mörgum tilfellum vinna meira.

Í grein í blaði vikunnar frá forstöðumanni Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, Hildi Gísladóttur, segir hún að huga þurfi betur að þeim útlendingum sem hingað eru komnir til að vinna, og þjónusta þá betur. Í þessu nýja fjölmenningarsamfélagi á Suðurnesjum þurfi bæði útlendingarnir og atvinnurekendur að gera betur. Starfsmennirnir að bæta tungumálakunnáttuna og atvinnurekendur að kynna sér betur menningarheim starfsfólksins. Áshildur Linnet, bæjarfulltrúi í Vogum sem á sæti í nefnd sveitarfélaganna vegna málþings um þróun íbúabyggðar á Suðurnesjum segir svo frá í VF viðtali : „Það þarf líka að byggja upp innviði samfélaganna samhliða þannig að við getum tekið vel á móti fólki og boðið hingað fólki sem tekur þátt í samfélaginu en er ekki bara til hliðar við samfélagið.“

Sýnt var beint frá málþinginu á Facebook-síðu VF og er hægt að sjá upptökuna þar. Umræðan var mjög áhugaverð sem og viðtöl í myndböndum við erlenda starfsmenn á Suðurnesjum.

Páll Ketilsson
ritstjóri