Erum við sjálfum okkur samkvæm?

„Við erum ekki sjálfum okkur samkvæm. Segjum margt og þykjumst hafa skoðanir á ýmsu sem miður fer en kjósum svo eitthvað allt annað,“ sagði ónefndur íbúi við VF eftir tíðindamiklar Alþingiskosningar og bætti við: „Við viljum fleiri konur á þing en þeim fækkar. Við viljum meiri heiðarleika og gegnsæi en eini flokkurinn sem virkilega stóð undir því galt afhroð í kosningunum á meðan stjórnmálamenn sem tengdust Panama skjölum og óheiðarleika ásamt því að vanvirða Alþingi, fengu blússandi kosningu. Hvernig getur þetta gerst?“

Já, það er vissulega hægt að taka undir orð þessa manns. Hann gat líka bætt því við að með því að gráta í beinni útsendingu í kosningasjónvarpi væri hægt að ná fleiri atkvæðum.

Það er margt skrýtið á Íslandi þó þar sé gott að búa að flestra mati. Við erum samkvæmt öllum tölum efst í hagvexti og huggulegheitum, með hæsta meðalkaupið og hæsta lægsta kaupið. Þetta hlýtur að vera frábært. Að vísu þurfum við að bæta kjör aldraðra og öryrkja, hækka kaup kennara og háskólamenntaðs fólks, og auðvitað þeirra lægst launuðu, styrkja háskólana, bæta samgöngur og stærsta málið sem Suðurnesjamenn sögðust vilja fá í gegn eftir kosningar væri bæting í heilbrigðismálum. 54% þeirra sem tóku þátt i vefkönnun VF sögðu það. Þetta er ekki flókið! Við hljótum að geta græjað allt þetta á næstunni í mesta góðæri Íslandssögunnar. Auðvelt verkefni fyrir nýja vinstri stjórn eða stjórn Sigmundar Davíðs sem er snillingur á einhverjum sviðum þó hann hagi sér oft eins og það sé þveröfugt. Flott samt hjá honum að bjóða Ingu í Flokki fólksins far í bílnum til Bessastaða.

Við verðum bara að sjá til og vona það besta. Í öllu þessu er ábyrgðin núna meiri á þeim sem kosnir voru til Alþingis en nokkru sinni fyrr. Málefnin verða að fá að ráða en ekki leikendurnir. Niðurstaðan eftir þessar kosningar sýnir að fólk er ráðvillt. Traustið til stjórnmálamanna og Alþingis hefur aldrei verið minna og það er eitt stærsta verkefni þeirra sem kosnir voru að laga þá stöðu. Þeir þurfa að sýna það þegar ný ríkisstjórn verður búin til úr flókinni stöðu þar sem allir flokkar nema einn unnu sigur, svo segja þeir allavega.


En frá Alþingiskosningum yfir í þær næstu. Sveitarstjórnarkosningar verða næsta vor en næst á dagskránni er kosning um sameiningu Sandgerðis og Garðs 11. nóv. nk. Það eru nánast engin rök fyrir því að ganga ekki til sameiningar og að til verði nýtt 3.500 manna sveitarfélag. Verkefnum sveitarfélaga hefur verið að fjölga, þau eru flóknari og sérhæfðari síðustu ár og það er ekki séð fyrir endann á þeirri þróun. Næsta skref, sem ætti að taka á næstu árum, hlýtur að verða sameining við Reykjanesbæ og jafnvel fleiri sveitarfélög á Suðurnesjum. Reykjanesið ætti auðvitað að vera eitt sveitarfélag og Grindavík inni í þeim pakka. Það vita allir sem vilja vita að þróunin er á þann veg í samfélagi sveitarfélaga. Þar skiptir stærðin máli.

VF segir frá því að nýr formaður hafi tekið við hjá Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi. Fyrrverandi þriggja stiga körfuboltaskytta úr Keflavík tekur við af frumherjanum Guðmundi Péturssyni sem vann flott starf í því að sameina krafta fyrirtækja á Suðurnesjum og stofna samtökin. Keflavíkurskyttan fær það vandasama verk að stilla upp sigurliði Reykjaness til næstu framtíðar. Hann ætti að geta það.
 

Páll Ketilsson
ritstjóri