Eru Suðurnesjamenn ekki nógu góðir?

Flugstöð Leifs Eiríkssonar er fjölmennasti vinnustaður á Suðurnesjum og hann er oft í fréttum hjá okkur á Víkurfréttum. Við Suðurnesjamenn montum okkur af þessu vinsæla húsi enda hefur flugstöðin komið okkur til bjargar í atvinnulegu tilliti, sérstaklega árin núna eftir bankahrun. Fjölgun ferðamanna hefur aldeilis skilað sér í fleiri störfum tengdum ferðaþjónustunni í og við flugstöðina. Öllu þessu höfum við fagnað enda eru Suðurnesjamenn í miklum meirihluta í þessum störfum og frekari uppbygging fyrirtækja skilar sér einnig í fleiri tækifærum fyrir Suðurnesjamenn.

Tvö mál tengd flugstöðinni sem komu í umfjöllun eða fréttum í vikunni vekja mann til umhugsunar. Í nýrri stjórn Isavia sem skipuð var af pólítíkinni nú í tengslum við aðalfund félagsins í byrjun vikunnar er ekki skipuð neinum Suðurnesjamanni en einum í varastjórn, Jóni Norðfjörð. Það er vægast sagt sérstakt að það sé virkilega ekki til frambærilegur einstaklingur á eða frá Suðurnesjum sem þarna ætti að eiga sæti. Er það ekki eðlilegt í þessari fjandans pólitík að hún hugi að því að hafa fulltrúa frá því svæði sem hýsir flugstöðina? Við viljum ekki trúa því að það séu ekki til nógu góðir kandídatar frá Suðurnesjum í þessa stjórn. Maður hefði haldið að Sjálfstæðisflokkurinn sem er með sterkustu stöðu allra flokka í Suðurkjördæmi og í Reykjanesbæ hefði notað tækifærið og tilnefnt aðila en því miður fann hann engan í stjórnina. Heimamenn sem láta sér þetta mál varða, ekki síst forráðamenn flokksins hér á svæðinu hljóta að vera vonsviknir, svo ekki sé meira sagt, og hljóta að krefjast svara. Sama er uppi á teningnum hjá hinum flokkunum nema Samfylkingu en þaðan kemur Sandgerðingurinn Jón varamaður.

Hitt málið er skráning Keflavíkurflugvallar, áfangastaðar útlendinga hér þegar þeir lenda á Íslandi. Í nær öllum tilfellum er nafnið REYKJAVÍK skráð á flugvöllum í útlöndum. Hvernig í ósköpunum stendur á því að því að KEFLAVÍK sé ekki haft eða alla vega með (Reykjavík/Keflavík) þannig að flugfarþegar viti hvar þeir eru að lenda? Steinþór Jónsson, hótelstjóri í Keflavík benti réttilega á þetta nýlega og sagðist ætla að fylgja málinu eftir með aðilum tengdum málinu frá Suðurnesjum og flugfélögunum. Hann benti á að margir útlendingar væru mjög hissa þegar þeir lentu hér og hefðu þær upplýsingar að hótelið þeirra í Reykjavík væri aðeins 5-10 mínútur frá alþjóðaflugvellinum. Er ekki málið að kippa þessu í lag í eitt skipti fyrir öll. Það getur varla verið stórmál fyrir flugfélögin.

Páll Ketilsson, ritstjóri.