Eru rauð epli jólin?

Þegar maður eldist finnst manni tíminn líða hraðar og þetta heyrir maður jafnvel frá enn eldra fólki en sá sem hér skrifar. Margt hefur breyst á undanförnum árum og þá til batnaðar m.a. í margvíslegri tækni en líka í kröfum fólks, sem er kannski ekki alveg jafn mikið til góðs. Fólk í dag er mun kröfuharðara um flesta hluti en það var fyrir nokkrum árum og áratugum. Vonandi höfum við lært af bankahruninu því þá fóru margir fram úr sér. Nú í haust hefur umræða um meiri velmegun orðið háværari með meiri einkaneyslu og í því samhengi hafa margir sagt einhvern góðærisstíl vera að láta á sér kræla. Það er vissara að hafa hógværðina í huga nú þegar jólahátíð gengur í garð. Þegar við tölum um hógværð og síðan kröfur nútímamannsins er nokkuð ljóst að þar ber mikið á milli. Það má minna á að rauð jólaepli voru hjá mörgum í gamla daga vísun á að jólin væru komin. Það er nokkuð ljóst að fæstir myndu sætta sig við það í dag. Hér er ekki verið að mæta með neikvæðni því öll erum við sammála um að gera vel við okkur í mat og drykk og gefa gjafir. Hér er aðeins verið að snerpa á að það á að vera okkur eðlislægt að hugsa til þeirra sem minna mega sín nú þegar jólin er að koma.

Í jólahugvekju séra Ólafs Odds Jónssonar heitins, sóknarprests í Keflavík, fyrir tuttugu árum síðan, segir hann frá því að Jesús hafi ekki fæðst í velsæld konungsfjölskyldu, heldur í fjárhúsjötu. Þar hafi birst heimur mennskunnar og Guðs blessað barn er hjarta þess.

Hér að neðan er jólahugvekja Ólafs, svo góð að það er við hæfi að birta hana í heild:

Ýmislegt kemur fram í hugann þegar við heyrum orðið aðventa. Aðventukransar, jólaljós, óskalistar, gjafir og bakstur tilheyrir dögunum fyrir jólin.

En hvað þýðir orðið aðventa? Það merkir koma, koma Jesú Krists. Í kristnum löndum hafa menn öldum saman undirbúið jólin á aðventu eða jólaföstu. Við hugleiðum boðskap biblíunnar um fæðingu Jesú. Við undirbúum jólin með því að lesa, syngja og ræða um fæðingu frelsarans. Í einum aðventusálmi segir:

Ljómar nú jata lausnarans

ljósið gefur oss nóttin hans.

Ekkert myrkur það krefja kann,

kristin trú býr við ljóma þann.


Hann kom sem einn af okkur og birti mönnum kærleika guðs og fyrirgefningu og varð sönn fyrirmynd hins sanna lífs. Hann fæddist ekki í velsæld konungsfjölskyldu, eins og vitringarnir ætluðu í fyrstu, heldur í fjárhúsjötu. Þar birtist mönnum heimur mennskunnar og Guðs blessað barn er hjarta þess heims.

Auglýsingar í blöðum, útvarpi og sjónvarpi minna á að tíminn til að versla fyrir jól styttist óðum. Minnumst þess jafnframt að dögum til að láta gott af sér leiða fyrir jólahátíðina, fækkar einnig. Látum ekki okkar eftir liggja sem borgarar heimsins og þegnar þjóðar, sem sögð er hamingjusöm og trúhneigð, að rétta þjáðum bræðrum hjálparhönd. Þannig eigum við þátt í því að gera mannlegt líf mennskara.

Kristur kom til þess og hann kemur enn í orði sínu og anda til að gera okkur rík í þekkingunni á kærleika Guðs og náð, þeim kærleika sem ætlaður er hverju mannsbarni. Hann kom til að vekja þá trú sem tendrast eins og ljós af ljósi.

Gleðileg jól.