Erfiðu sjö árin og nýi tíminn!

Við sögðu frá því hér í VF fyrir skömmu að atvinnuleysi væri í sögulegu lámarki og aðilar í og við flugstöðina sætu nú sveittir og klóruðu sér í hausnum um hvernig ætti að bregðast við því. Rútuferðir til og frá Keflavík er ein hugmyndin því öruggt er að leita þarf eftir starfsfólki út fyrir Suðurnesin.

Þetta er að sumu leyti lúxusvandamál fyrir Suðurnesjamenn en það getur líka verið erfitt að fóta sig í nýju umhverfi þar sem mun erfiðara er að fá starfsfólk í hin ýmsu störf því fyrir svo mjög stuttu síðan vantaði atvinnu á Suðurnesjum. En…sé ástandið slæmt núna þá á það bara eftir að versna. Spáð er annarri eins aukningu ferðamanna til Íslands á næsta ári. Við erum að tala um 600 þúsund fleiri en á metsumrinu sem nú stendur yfir. Við erum að tala um að allir nær allir rekstraraðilar eða mjög margir, munu þurfa fleiri starfsmenn á næsta ári en á þessu. Margir fjölguðu ekki fólki í sumar því þeir ætluðu að tækla aukninguna á sama fjölda starfsmanna og í fyrra. Það verður varla gert á næsta ári. Þá er almenn aukning í viðskipalífinu sem kallar líka á meira fólk. Í blaði vikunnar eru dæmi þess efnis.

Lúxusvandamálið, hvað er til ráða?

Hvað er til ráða í þessu lúxusvandamáli Suðurnesja? Svæði sem hefur verið talað mjög mikið niður eftir bankahrun er búið að rísa upp úr öskustónni og það svo um munar. Það vantar iðnaðarmenn, verkafólk og háskólamenntað fólk á svæðið. Hér er enn eitthvað til af íbúðum og húsum og innviðir eru sterkir, samanber leik-, grunnskóla og framhaldsskóla. Hér eru húsakynni ódýrari en á höfuðborgarsvæðinu og ljóst að mannfjölgun sem hefur verið hvað mest á Suðurnesjum mun halda áfram. En hún þarf að gerast enn hraðar miðað við þetta. Við þurfum að ná í fólk út fyrir svæðið, laða það hingað. Fjölgun mun líka hjálpa Reykjanesbæ sem tekur til sín mesta fjöldann. Fleiri sem greiða í bæjarkassann.

Hins vegar verður fróðlegt að sjá hvernig stórir atvinnurekendur sem eru að koma sér fyrir á svæðinu, samanber iðnfyrirtæki í Helguvík ætla að leysa úr starfsmannamálum. United kísilverið fékk góð viðbrögð við starfsmannauglýsingu í sumar en það er ekki gott að segja hvað gerist í framhaldinu. Tvö kísilver munu þurfa hundruð manna til starfa á næstu árum og strax hluta þess á næsta ári. Svæðið getur tekið við fleira fólki og til að hjálpa til í leitinni eftir vinnuafli er kannski lag að aðilar á Suðurnesjum taki sig saman og vekji athygli á því að hér er gott að búa, stutt frá höfuðborg og alþjóðaflugvelli og innviðir sterkir. Það koma ekki nema um 150 manns á hverju ári á atvinnumarkaðinn eða sem nemur um 1% bæjarbúa. Bara aðilar í flugstöðinni munu þurfa þann fjölda tvöfalt eða þrefalt á næsta ári.

Skjótt skipast veður í lofti

Hópur fólks sem mótmælir því að annað kísilver rísi í Helguvík hefur fengið góð viðbrögð og nær líklega þeim fjölda undirskrifta sem þarf til að knýja fram kosningu sem mun ekki hafa neitt að segja í málinu nema tugi milljóna króna kostnað vegna kosningar fyrir Reykjanesbæ. Bæjaryfirvöld hafa gefið það út að þau muni ekk breyta neinu í þessu máli. Það sé komið alltof langt. Sömu aðilar sem mótmæla nú nýju kísilveri Thorsil þögðu þunnu hljóði þegar atvinnuástandið var lélegt en nú er í lagi að mótmæla og setja bæjarfélagið í vonda stöðu. Hver vill fjárfesta eða setja upp fyrirtæki í bæjarfélagi þar sem stórum ákvörðunum gæti hugsanlega verið hnekkt því það hentar ekki núna en hentaði fyrir tveimur árum. Svona mótmælum fylgir ábyrgð. Enginn sagði neitt við áformum um stórtæka uppbyggingu í Helguvík fyrir stuttu síðan. Væri ekki nær að nota milljónir sem fara í óþarfa kostnað við kosningu og fleira sem mun ekkert hafa að segja, í eitthvað þarfara í Reykjanesbæ? Eru undirskriftirnar ekki næg skilaboð fyrir bæjaryfirvöld og bæjarbúa sem nú hafa áhyggjur af t.d. mengun en voru ekki að hugsa um það þegar það vantaði atvinnu? Er ekki lag að þeir sem standa að þessum mótmælum sýni skynsemi, eitthvað sem þeir eru m.a. að gagnrýna að ekki hafi verið gert.

Svona eru hlutirnir skrýtnir en í haust eru sjö ár frá bankahruni. Það er oft talað um sjö ára sveiflur og nú taki við góð sjö ár. Vonandi höfum við lært af þessum síðustu erfiðu sjö árum þannig að sveiflan verði miklu minni ef þetta rætist, eftir næstu sjö ár.

Páll Ketilsson.