Er að koma betri tíð?

Eftir frekar neikvæða umræðu í kringum allt skuldafenið hjá Reykjanesbæ er ekki laust við að maður hýrni aðeins við að heyra sérfræðinga Íslandsbanka segja frá betri tíð í vændum. Meiri hagvöxtur, skuldir að lækka, laun að hækka og nýtt hagvaxtaskeið sé byrjað. Tækifæri framundan og betra hljóð í mönnum. Sem sagt; góðar fréttir af fundi bankans um efnahagsmál í Stapa í vikunni.

Þetta hljóta að vera góð tíðindi fyrir forráðamenn Reykjanesbæjar sem standa frammi fyrir milljaðra sparnaði á næstu árum. Fleiri störf og meiri peningur í bæjarkassann. Umhverfi fyrirtækja er að lagast og þegar maður heyrir í forráðamönnum margra hér á Suðurnesjum þá er jú, hljóðið mun betra en verið hefur, í raun það besta frá hruni. Vinnuvélaverktaki sagði VF frá því að hann hefði verið með 30 manns eða þrefalt fleiri en áður, í vinnu við breytingar á flugstöð Leifs Eiríkssonar í sumar og enn væri allt á fullu þar. Iðnaðarmenn hafa verið þar nótt og dag og verða áfram við milljarða breytingar og stækkun á flugstöðinni. Stærsta flugfélag Breta verður með 8 flugleiðir í boði til Keflavíkur á næsta ári en þeir byrjuðu fyrst að fljúga til Íslands fyrir tveimur árum. Það kallar á fjölda starfa hér og þar. Hundrað manns munu vinna við stækkun Bláa lónsins og við byggingu lúxushótels. Það er vöxtur í sjávarútvegi á Suðurnesjum, ný fyrirtæki hafa verið stofnuð og nýir bátar fyrir hundruð milljóna eru líka að renna inn í höfn í Grindavík. Sighvatur Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka segir í viðtalið við VF að uppsveiflan hafi þó verið hægari hjá almenningi hér á Suðurnesjum en bendir á vöxt á fyrirtækjamarkaði. Uppsveiflan er hóflega sagði kollegi hans hjá bankanum í Stapa í vikunni. Við erum með mjög áhugavert viðtal við húseiganda í Grindavík sem vann mál vegna fasteignaláns frá Sparisjóðnum/Landsbankanum. Hundruð slíkra mála gætu farið á sama veg til hagsbóta fyrir fólkið sem tók þessi ólöglegu lán.

Nú eru liðin sex ár frá hruni. Fólk og fyrirtæki hafa beðið eftir betri tíð. Eigum við ekki að segja að hún sé að koma.

Páll Ketilsson
ritstjóri