Enn af snillingum

Ritstjórnarpistill Víkurfrétta

Blað vikunnar er litað af tónlist. Við gerum upp ATP hátíðina á Ásbrú sem tókst líka svona glimrandi vel, en einnig er í blaðinu veglegt viðtal við tvo af merkari tónlistarmönnum samtímans á Suðurnesjum. Hjálmarnir Kiddi og Siggi hafa ýmislegt brallað saman í tónlistinni allt frá unglingsárum en þá lágu leiðir þeirra saman í hljóðveri Rúnars Júlíussonar við Skólaveg. Rúnar var allur af vilja gerður og leyfði unglingunum að taka upp í hljóðverinu og notast við þær græjur sem til voru í Geimsteini hverju sinni. Guðm. Kristinn Jónsson, eða Kiddi Hjálmur, segir m.a í viðtali við Víkurfréttir að ef það væri ekki fyrir Geimstein, hvað hefði þá orðið um Hjálma, Valdimar, Klassart og fleiri? Fyrir ungar hljómsveitir er það að koma í stúdíó og taka upp lag rosa mikið mál.“

Hvort sem þeir Siggi og Kiddi geri sér grein fyrir því eða ekki, þá eru þeir á góðri leið með að verða goðsagnir í tónlistarbransanum rétt eins og Hljómar og fleiri á undan þeim. Báðir hafa þeir komið nærri ótal verkefnum í tónlist og mætti segja að allt sem þeir koma nálægt verði að gulli. Þeir hafa þann einstaka eiginleika að ná til allra aldurshópa með tónlist sinni. Ég þekki til gamalmenna sem hlusta reglulega á plötu Sigurðar „Oft spurði ég mömmu,“ en hún er stútfull af dægurperlum íslenskrar tónlistarsögu.

Ég hvet fólk til þess að horfa á þátt Sjónvarps Víkurfrétta Á ÍNN en þar má sjá viðtal sem ég tók við þá Hjálma en einnig má lesa það hér í blaðinu okkar. Þeir taka einnig lagið fyrir okkur ásamt Þorsteini söngvara. Eins ber að minnast á viðtal við Njarðvíkinginn Daníel Guðbjartsson sem er einn af áhrifamestu íslensku vísindamönnum samtímans. Ég minntist á nokkra snillinga frá Suðurnesjum í grein minni hér á dögunum. Ég sá að fólk var duglegt, með réttu, við að telja upp fleiri slíka á samfélagsmiðlunum enda ógjörningur að telja upp alla þá snillinga sem héðan koma í einum stuttum pistli sem þessum.

Eyþór Sæmundsson

Blaðamaður