Eitt álver árlega á Keflavíkurflugvelli

Nýjustu fréttir frá ört vaxandi Keflavíkurflugvelli sem sagt var frá á fundi Isavia í vikunni eru vægast sagt magnaðar. Þúsundir nýrra starfa verða til á næstu árum og árið 2018, eftir tvö ár, verður Keflavíkurflugvöllur orðinn stærsti vinnustaður á Íslandi. Við erum að tala um yfir 400 ný störf á ári, næsta aldarfjórðunginn. Suðurnesjamenn fögnuðu áætlunum um byggingu álvers í lok góðæris og á miklum erfiðleikatímum fljótlega eftir bankahrun horfðu menn til þess að álver gæti bjargað Suðurnesjunum. Um og yfir 400 störf verða til í meðalstóru álveri. Við erum að tala um að næstu 25 árin verði fjöldi nýrra starfa á ári álíka og ef það væri byggt eitt álver á ári. Árið 2040 er gert ráð fyrir að um 16 þúsund manns starfi á flugvellinum eða hjá fyrirtækjum sem tengjast fluginu við völlinn. Svipaður fjöldi og allir bæjarbúar Reykjanesbæjar í dag. En hvernig á að manna öll þessi störf á næstu árum?
 

Þetta er eiginlega of gott til að vera satt en þó þetta sé spá þá er hún gerð af sérfræðingum og við gerð hennar er meðal annars notast við áætlanir flugfélaganna sem eru langt fram í tímann. Í sumar flugu 25 flugfélög til og frá Keflavík. Þessi aukning á undanförnum árum hefur gert það að verkum að gjaldeyristekjur Íslands hafa tvöfaldast frá árinu 2011 til 2015.

Þó svo að talað sé um að hægt sé að gera framtíðaráætlanir út frá spám þá er aldrei hægt að útiloka einhverjar hamfarir sem geti haft áhrif, líkt og gerðist um árið í árás á tvíburaturnana í Bandaríkjunum. Það hafði veruleg áhrif á ferðagleði fólks um allan heim í einhvern tíma. Sá sem þetta ritar er nýkominn frá skosku borginni Aberdeen. Hún hefur lengi verið þekkt fyrir gríðarlega sterka stöðu í atvinnuþáttum tengdum olíurekstri. Verðfall olíunnar hefur að undanförnu haft mjög neikvæð áhrif á margt, til dæmis rekstur veitingastaða og hótela í borginni sem hafa þurft að fara í greiningarvinnu vegna þessara breyttu aðstæðna. Verð á hótelgistingu hefur til dæmis lækkað mikið í kjölfarið. Þá hafa veitingastaðir gert ráðstafanir, meðal annars lækkað verð, allt til að örva viðskiptin hjá heimamönnum og nýjum ferðamönnum.


En aftur hingað heim. Í ljósi þess að ferðaþjónustan er orðin stærsta atvinnugreinin er það svolítið sérstakt að það þurfti banaslys og í kjölfarið þrýsting áhugahóps á Suðurnesjum, til að stjórnmálamenn setji það ofar á listann að klára tvöföldun Reykjanesbrautar til flugstöðvarinnar. Það gekk þó eftir í vikunni þegar ný samgönguáætlun var samþykkt.

Talandi um stjórnmálamenn, þá eru þeir í eldlínunni þessa dagana, það er stutt í kosningar. Enginn sást þó á fundi Isavia sem haldinn var í Reykjavík í vikunni, þar sem þessi stórtíðindi um magnaða framtíð Keflavíkurflugvallar voru kynnt. Þeir fá það erfiða verkefni að svara því fyrir kosningar hvað þeir ætli síðan að gera við tíu milljarða hagnað af rekstri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, sem er að ljúka við sölu á öllum eignum ríkisins á Ásbrú. Eignum sem það fékk gefins frá Varnarliðinu. Fráfarandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir við VF að það hljóti að vera eðlilegt að þessir peningar fari til ráðstöfunar til áframhaldandi uppbyggingar á Suðurnesjum. Reykjanesbær hefur þurft að kosta ýmsu til á undanförnum árum í uppbyggingu samfélags á Ásbrú, til dæmis með skólum og annarri þjónustu. Hér verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst og það verður líka spennandi að sjá hvernig stjórnmálamenn munu taka á þessu máli. Munu þingmenn svæðisins og frambjóðendur fylgja því eftir?


Páll Ketilsson

ritstjóri