Einstaklingsframtakið

Með skömmum fyrirvara var búinn til skemmtilegur viðburður í Sandgerði í síðustu viku. Veðurspáin var góð og tveir tónlistarmenn fengu þá flugu í höfuðið að halda útitónleika á tjaldstæðinu í Sandgerði. Stofnaður var viðburður á fésbókinni og send tilkynning til Víkurfrétta á miðvikudegi. Tveimur dögum síðar hópaðist fólk á tjaldstæðið til að hlusta á tónleika, njóta góða veðursins og þiggja ókeypis veitingar. Þarna fékk einstaklingur í Sandgerði hugmynd þar sem hann var staddur í barnaafmæli, hringdi í félaga sinn í hljómsveitinni Hobbitunum frá Sandgerði. Sá setti sig í samband við Jónas og Hjördísi hjá iStay, sem sér um tjaldstæðið. Jónas greip hugmyndina á lofti, keypti 300 pylsur og helling af gosdrykkjum, fékk fullt kar af ís hjá ísverksmiðjunni í Sandgerði til að kæla drykkina, og slegið var upp tónleikum. Einstaklingsframtaki sem kostaði litla fyrirhöfn var komið í framkvæmd og fjölmargir skemmtu sér vel síðdegis sl. föstudag.

Á sama tíma voru fjölmargir einstaklingar í Garðinum að slá upp hverfisleikum í tilefni af sólseturshátíð í Garði. Foreldrar og börn komu saman á Gerðatúninu og fóru í leiki. Leikarnir voru einstaklingsframtak íbúa í Garði en ekki „aðkeypt skemmtun“. Nýlega tóku íbúar í götu einni í Reykjanesbæ sig saman og settu upp veislu í götunni, grilluðu og fóru í leiki.

Einstaklingsframtak hjónanna á Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd, sem ætla að byggja sveitakirkju í 19. aldar stíl á landareigninni er til þess ætlað að draga ferðamenn til sveitarfélagsins. Þau reka ferðaþjónustu á heimili sínu og án efa mun samfélagið í Sveitarfélaginu Vogum einnig njóta ávaxta af þeirri ferðaþjónustu.

Einstaklingar sem leggja sitt af mörkum í sjálfboðastarfi eru einnig margir. Fjölmargir sjálfboðaliðar í Grindavík tóku á móti 400 gestum á unglingalandsmóti Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem fram fór í Grindavík í síðustu viku. Ekki hefði verið hægt að halda mótið nema með öflugu sjálfboðastarfi. Þá héldu sjálfboðaliðar í Björgunarsveitinni Ægi upp á 80 ára afmæli björgunarsveitarinnar um síðustu helgi. Björgunarsveitirnar eru með þéttskipað lið einstaklinga í sjálfboðastarfi. Óska Ægismönnum til hamingju með árin 80 og þakka fyrir skemmtilegt einstaklingsframtak á tónleikum í Sandgerði og á sólseturshátíð í Garði. Við getum svo margt sem einstaklingar og getum örugglega gert meira fyrir samfélagið okkar en við gerum okkur grein fyrir.

Hilmar Bragi Bárðason
fréttastjóri Víkurfrétta