Einn hættulegasti vegur landsins

- Ritstjórnarpistill Páls Ketilssonar

Það er óhætt að segja að tilfinningar meðlima Stopp-hópsins sem valdir voru „Menn ársins á Suðurnesjum“ hafi verið blendnar en sama dag og Víkurfréttir komu út í þar síðustu viku og þeir fóru að fá hamingjuóskir fyrir árangurinn varð hörmulegt banaslys á Grindavíkurvegi. Ung stúlka, í blóma lífsins, lést í bílslysi.

Ísak Ernir Krstinsson, talsmaður Stopp-hópsins skrifaði á Facebook síðu sína eftirfarandi:

„Andstæðurnar í lífinu geta varla verið skýrari. Á sama degi og við fáum viðurkenningu fyrir að berjast fyrir auknu umferðaöryggi á Suðurnesjum á sér stað banaslys. Grindavíkurvegur er sennilega hættulegasti vegur landsins miðað við umferðarþunga. Við munum ekki láta okkar eftir liggja í að þrýsta á umbætur! Hugur okkar allra er hjá aðstandendum og fjölskyldu.“

Banaslysið er það þriðja á veginum frá árinu 2002 og samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu hafa orðið 18 alvarleg slys á veginum síðan árið 2002. Grindavíkurvegurinn er einn af áhættumestu vegum á landinu miðað við umferðarmagn og slysasögu áranna 2009 til 2014. Hann er í sjöunda sæti yfir þá vegi sem flest slys verða á. Umferð um veginn hefur aukist gríðarlega með tilkomu fleiri ferðamanna. Rætt er um að rannsaka þurfi Grindavíkurveg og þá sérstaklega þennan kafla sem slysið varð á, rétt norðan við Bláa Lónið. Hugsanlegt sé að hálka myndist oftar vegna gufu frá Svartsengisvirkjun og einnig komi raki undan hrauninu. Þannig aukist líkur á hálkumyndun á veginum. Þetta er haft eftir Ólafi Guðmundssyni, tæknistjóra EuroRAP á Íslandi en EuroRAP er eftirlitskerfi með öryggi vega í Evrópu. Miðað við þessar upplýsingar ætti einnig að skoða bráðabirgða lausnir í þessu sambandi, eins og að vekja athygli á þessari hættu, til dæmis með skiltum, þannig að ökumenn aki hægar og varlegar.

Það er ljóst að umbætur í samgöngum gerast hraðar ef raddir fólksins heyrast hærra. Suðurnesjamenn hafa ítrekað bent á hættuna á Grindavíkurvegi. Meðlimir Stopp-hópsins hafa verið í þeim hópi. Eins og blasir við þarf úrbætur á Reykjanesbraut að flugstöð en það þarf líka að ráðast í úrbætur á Grindavíkurvegi. Reynslan segir okkur það. Suðurnesjamenn eiga að halda áfram að hvetja Stopp-hópinn í þeirra verkefnum í samgöngum. Það er aldrei nóg.