Drullaðu þér í Laugardalinn!

Ritstjórnarpistill Víkurfrétta

Kannski er ég að ganga of langt með fyrirsögninni en þeir notuðu þetta víst þegar þeir voru að tala um fótboltann fyrir vestan fyrir skömmu. Það að liðið þitt komist í úrslitaleikinn í bikarkeppninni í fótbolta er alls ekkert sjálfsagt. Þú getur ekki tekið því sem gefnu. Keflvíkingar hafa reyndar í gegnum tíðina verið fengsælir í bikarnum og leikið níu sinnum til úrslita frá því að bikarkeppnin hófst árið 1960. Þeir eru því að komast í úrslit á níu ára fresti ef stærðfræðin er ekki að svíkja mig, sem hún hefur reyndar oft gert. Það eru margir þarna úti sem þykir fótbolti og íþróttir vera leiðinleg fyrirbæri. Með þessum pistli ætlaði ég að reyna að hvetja bæjarbúa Reykjanesbæjar og fótboltafíkla til þess að mæta á völlinn og búa til stemningu og allar þær klisjur. Betur væri að reyna að sannfæra þá sem eru á móti fótbolta og öðru sprikli um að mæta á völlinn.

Væri ekki tilvalið að skella sér í 10 stiga hitanum og 12 metrum á sekúndu (Norðanátt samkvæmt nýjustu spám) og sitja á rassgatinu í stúku í Laugardalnum í tæpa tvo klukkutíma? Þú getur svo keypt þér popp og upphitaða pizzu á uppsprengdu verði og hlustað á ókunnugt fólk öskra einhverja vitleysu. Nei, djók. Þetta er í alvöru æðislega skemmtileg upplifun. Það er sérstakur andi sem svífur yfir vötnum á svona leikjum, stundum er það nú vínandi, sem fær fólk til þess að sleppa fram af sér beislinu. Þarna er tilvalið tækifæri til þess að gefa söngröddinni lausan tauminn og njóta þess að hegða sér eins og fífl. Ég hef orðið var við það að á viðburðum sem þessum, þá mæta ansi oft einhverjir sem eru ekkert að spá í leiknum, heldur eru þeir þarna til þess að sletta úr klaufunum og taka þátt í stemningunni. Ég hef alltaf dáðst að þessu fólki. Það væri virkilega gaman að sjá sem flesta á leiknum og ég mæli eindregið með því að þið sem ætlið á leikinn dragið með ykkur einhvern sem aldrei hefur farið á bikarúrslitaleik. Að fara á bikarúrslitaleik í fótbolta er eitthvað sem allir ættu að prófa á ævinni, vertu nú eitt af þessum skemmtilegu fíflum í stúkunni á laugardaginn.

Með bikarkveðju

Eyþór Sæmundsson