Björgunarhringur inn á borð bæjarstjórnar

Það er óhætt að segja að hurð hafi skollið nærri hælum hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar þegar björgunarhringur barst inn á skrifstofur hennar rétt fyrir fund í gær. Allir bæjarfulltrúar höfðu undirbúið mál sitt með tilliti til þess að það væri verið að henda inn handklæðinu, eins og sagt er, eða skila lyklunum. En lífeyrissjóðirnir, sem höfðu gefið Reykjanesbæ langt nef í 18 mánaða viðræðum, komu með tilboð rétt fyrir upphaf fundar og sögðust vilja semja. Þeir sendu bréf þess efnis að þeir vildu mæta í nýjar viðræður. Gott hjá þeim og vonandi gott fyrir Reykjanesbæ.

Fundurinn var því allt öðruvísi en allt stefndi í og hljóð í mannskapnum miklu betra. Bjartsýni ríkir meðal forráðamanna bæjarstjórnar en þeir höfðu haldið áfram að ræða við lífeyrissjóðina, sem líklega hafa gert sér grein fyrir því að betra væri að semja við Reykjanesbæ en að fá fjárhaldsstjórn að borðinu. Vonandi klárast þetta mál á næstu tveimur vikum en það er tíminn sem aðilar gefa sér, eða fyrir næsta bæjarstjórnarfund, 3. maí.

Á sama bæjarstjórnarfundi var greint frá miklu betri árangri í rekstri bæjarfélagsins á síðasta ári og þá er útlitið enn bjartara í öllum þáttum sem hafa áhrif á rekstur bæjarins; atvinnuleysi í lámarki og allt á blússandi siglingu upp á við í atvinnulífinu, hvert sem litið er. Bæjarbúum fjölgar langt umfram meðaltal í sveitarfélögunum og þannig aukast tekjur bæjarsjóðs. Þetta hafa kröfuhafar auðvitað séð og kannski þess vegna verið erfiðari í samningaviðræðum og reynt að knýja samningamenn Reykjanesbæjar til að samþykkja að lengja í lánunum. Það hafa þeir hins vegar ekki viljað gera því nauðsynlegt er að ná skuldahlutfallinu niður fyrir tilsettan tíma. Það er því óhætt að segja að staðan hafi verið snúin fyrir samningamenn Reykjanesbæjar, með allt í jákvæðri uppsveiflu en með miklar skuldir sem voru að setja bæinn á hausinn. Mjög sérkennileg staða vægast sagt. En nú vonandi klárast þessi mál og forráðamenn Reykjanesbæjar geta farið að einbeita sér að því að reka bæjarfélag á eðlilegan hátt og byggja upp sterkt samfélag. Hluti af því að ná enn betri árangri í rekstri á næstu árum væri síðan að hjóla í sameiningarmál sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þegar fjármál Reykjanesbæjar verða komin fyrir vind ættu hin sveitarfélögin að detta inn. Það þarf að gerast fyrr en seinna. Það er ekki spurning hvort heldur hvenær.