Banki gerir upp á bak

Það er óhætt að segja að sóknarpresturinn í Njarðvík og Landsbankinn séu búnir að vera á milli tannanna á fólki síðustu daga. Presturinn vegna fjármála og akstursgreiðslna og bankinn vegna uppsagnar á einum starfsmanni sem er fatlaður. Svo hefur Akurskóli einnig verið í sviðsljósinu en Víkurfréttir greindu frá því að skólinn hafi fjarlægt merkingar um kyn á salernum. Svona er mannlífið á Suðurnesjum og málefnin misjöfn.

Hér verður aðeins vikið að Landsbankanum sem gerir all svakalega upp á bak, svo notað sé götumál. Mannlegi þátturinn virðist ekki vera ofarlega hjá yfirmönnum bankans. Fatlaður einstaklingur sem hefur unnið lengi hjá bankanum er einum sagt upp í síðustu viku í útibúinu í Reykjanesbæ. Starfsemin er að breytast, það þarf að hagræða og því er tilvalið að láta hann fjúka. Fatlaði maðurinn hefur sinnt starfi sínu mjög vel og ekki nóg með það, haft góð áhrif á andann í afgreiðslu bankans. Og líka ímynd bankans. Flott hjá honum að hafa fatlaðan einstakling í sínum röðum. Ekki lengur. Og af því hann er fatlaður á hann erfiðara með að fá annað starf en ófatlaður einstaklingur. Það skiptir ekki máli. Núna er ekki lengur hægt að vera með eitthvað mannlegt inni í myndinni. Kannski eru róbótar að taka við. Hvernig verður það?

Við vitum að fækkun starfsmanna er liður sem er ofarlega í rekstrarmynd bankanna enda hefur verið sagt að bankakerfið sé of stórt hér á landi. Það má vera rétt. Aðalatriðið í banka allra landsmanna er að græða nógu mikla peninga. Það þarf að ná niður kostnaði og ná fram meiri hagnaði. Með öllum ráðum. Það hlýtur að vera erfitt að vinna innan veggja bankans þegar uppsagnarbréfið flýgur stöðugt yfir og bara spurning hvar það lendir næst.

Hvar er samkenndin í ríkisbankanum? Hvar er samfélagslega ábyrgðin sem bankinn segist standa fyrir. Þetta segir hann á vefsíðu sinni: „Landsbankinn ætlar sér að hafa forystu um að byggja upp velferð til framtíðar í íslensku samfélagi. Bankinn hefur markað sér stefnu í samfélagslegri ábyrgð þar sem efnahags-, samfélags- og umhverfismálum er fléttað saman við starfshætti bankans.“

Og undir samfélagstefnu segir m.a.: „Landsbankinn ætlar að hafa forystu um að byggja upp velferð til framtíðar í íslensku samfélagi. Landsbankinn vill tryggja ávinning af rekstri sínum fyrir bæði samfélagið og hluthafa með því að flétta efnahags-, samfélags- og umhverfismálum saman við starfshætti bankans. Þetta gerir Landsbankinn með því að byggja upp trausta innviði og öfluga liðsheild, hlusta á viðskiptavini sína og virða og hvetja starfsmenn til virkrar þátttöku í samfélaginu.“

Er bankinn að hlusta á viðskiptavini og virða starfsmenn?

Páll Ketilsson
ritstjóri