Auðlindagarður og meistaradeildin

Væntingarvísitala landsmanna er á uppleið og sama sagan er hér á Suðurnesjum. Á morgunverðarfundi Íslandsbanka kom fram að einkaneysla og fjárfesting  myndi drífa áfram hagvöxt landsins á næsta ári en þó eru væringar varðandi verðbólgu sem gæti hækkað m.a. vegna mikilla launahækkana. Við greinum frá því í Víkurfréttum í dag að nærri 600 starfsmenn hjá fyrirtækjum  í Auðlindagarðinum á Reykjanesi eru með um þriðjungi hærra kaup en landsmeðaltal. Þar vekur líka athygli að laun á Suðurnesjum eru örlítið hærri en landsmeðaltalið. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður sérfræðinga Gamma ráðgjafar, fyrirtækis sem gerði úttekt á efnahagslegum áhrifum Auðlindagarðsins á Reykjanesi.

Auðlindagarðurinn hljómar ekki kunnuglega í eyrum flestra en hann er magnað fyrirbæri og hugmyndasmiðurinn er Albert Albertsson, verkfræðingur, aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja til margra ára og núverandi hugmyndasmiður hjá HS Orku. Í Auðlindagarðinum á Reykjanesi eru starfrækt níu fyrirtæki og þau byggja framleiðslu sína á samnýtingu jarðvarma frá tveimur orkuverum HS Orku. Fyrirtækin eru með fjölbreytta starfsemi en þekktast þeirra er Bláa lónið sem er með á fjórða hundrað manns í vinnu og reyndar fleiri síðasta sumar. Þar eru líka fiskþurrkunarfyrirtæki og fiskeldi, hótel, líftæknifyrirtæki og nýsköpunarfyrirtækið Carbon Recycling sem framleiðir metanól, m.a. til íblöndunar í bensín. Stolt Sea Farm fiskeldisfyrirtækið nýtir sjó sem kemur frá orkuverinu eftir að hafa kælt hverfla þess á Reykjanesi og með smá blöndu verður til kjörhitastig til að rækta Senegalflúru en það er einn verðmætasti fiskur í heimi.

Auðlindagarðurinn varð smám saman að veruleika eftir að fólk byrjaði að baða sig í heitu vatni sem rann frá orkuverinu í Svartsengi. Það eru nærri fjörutíu ár síðan. Albert hugmyndasmiður hefur leitt þessa þróun sem hefur skapað þetta flotta fyrirbæri í „grænu“ umhverfi sem skapar núna nærri 600 störf, milljarða í tekjur og er „Samfélag án sóunar“.

Á fyrrnefndum fundi Íslandsbanka kynnti Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia stöðuna í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Farþegaaukningin er gríðarlega mikil að það er talað um partý á Íslandi. Það vilja allir koma. Á næsta ári munu 25 flugfélög fljúga frá Keflavík til 80 áfangastaða. Vaxtaverkirnir hafa verið nokkrir enda eitthvað sem enginn trúði að myndi gerast. Á sjöundu milljón farþega munu fara um KEFlavíkurflugvöll á næsta ári. Elín sagði að miðað við stærð hans þá væri hægt að segja að hann væri kominn í meistaradeildina. Það er gaman að vita til þess að Ísland eigi aðila í meistaradeild ferðaþjónustunnar í heiminum.