Atvinnumálin á Suðurnesjum

Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Góðar fréttir berast frá þremur stórum vinnuveitendum í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem tala um harðari samkeppni um starfsfólk en áður. „Fyrir atvinnuleitendur er þetta lúxusvandamál því margir auglýsa og ráða inn stóran hóp fólks. Ég efast um að það séu auglýst svona mörg störf hjá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Svala Guðjónsdóttir starfsmannastjóri IGS í forsíðufrétt í nýjasta tölublaði Víkurfrétta. Þá hafi einnig aukist að fólk af höfuðborgarsvæðinu sæki um störf á Suðurnesjum og margir umsækjendur sækji um mörg störf til að tryggja sig. 

Í sömu frétt tala starfsmannastjórarnir þrír um aukin umsvif hjá fyrirtækjum í flugbransanum vegna þess að svokallað sumartímabil hafi lengst samhliða eflingu í ferðaþjónustu. Það búi til fleiri störf og farið er að fastráða fleiri á haustin og í desember. Eins og oft hefur komið fram hefur ferðaþjónusta á Suðurnesjum eflst mikið á undanförnum árum og er í miklum blóma nánast allt árið. Gistirýmum hefur einnig fjölgað á hótelum og strætóferðir um Reykjanesbæ með Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem upphafs- og endastöð býður upp á mikla möguleika í verslun og þjónustu fyrir ferðamenn á svæðinu. 

Ofan á allt er heilmikil ytri uppbygging á Suðurnesjum tengd ferðaþjónustunni, s.s. bygging Lúxushótels við Bláa lónið og stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þessum framkvæmdum fylgja sumarstörf hjá verktökum, eins og Sóley Ragnarsdóttir, starfsmannastjóri hjá Fríhöfninni og Isavia, bendir á í sömu frétt.

Í annarri frétt í nýjasta tölublaði Víkurfrétta kemur fram að í sumar muni hópur 17 ára nemenda eiga kost á vinnu í allt að sex vikur hjá Vinnuskóla Reykjanesbæjar. Það er gert til að brúa bilið fyrir þau vegna krafna víða um um 18 ára lágmarksaldur, bílpróf og jafnvel hreint sakavottorð, t.d. í flugstöðinni. Nemendur 8. bekkjar munu í staðinn ekki eiga kost á vinnu hjá bænum. Varaformaður Ungmennaráðs Reykjanesbæjar segir að koma þurfi að koma til móts við 8. bekkinga á einhvern hátt í staðinn. 

Mikil gróska er hjá fiskvinnslufyrirtækjum á Suðurnesjum og í fiskiðnaði yfirleitt, en slík fyrirtæki eru aðallega rekin í Grindavík, Sandgerði og Garði. Fyrsta starfið sem ég sótti um (og fékk) þegar ég var 14 ára unglingur í Njarðvík var í fiskvinnslu R.Á. Péturssonar í sama bæ. Kannski er það ekki lengur málið. Eða gætu atvinnurekendur reynt að lækka lágmarksaldur niður í 17 ára í störf þar sem ekki þarf bílpróf. Það eru a.m.k. ókeypis strætóferðir upp í flugstöð.