Árangur hugsjónastarfs

Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Rannsóknir á heilastarfsemi hafa staðfest að gott atlæti og örvun fyrstu árin hefur mikilvæg áhrif á lestrarfærni og námsgetu síðar á lífsleiðinni. Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur, hefur um árabil byggt upp frumkvöðlastarf í þróun aðferða til að hjálpa til við læsi. Meðal fjölda hugarfóstra Bryndísar er smáforritið „Lærum og leikum með hljóðin“ sem notað er í skólum og leikskólum víða um land. Aðferðir sem Bryndís notar í þróun forrita af þessu tagi eru byggðar á áratuga reynslu hennar sem talmeinafræðingur og í starfi með börnum og foreldrum þeirra.

Fyrir tveimur árum stóð fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar fyrir átaki í læsi. „Mér tókst að mæla þennan árangur í Háaleitisskóla og fyrsti árgangurinn sem prufukeyrði efnið og aðferðafræðina „Lærum og leikum með hljóðin“ náði gríðarlegum árangri,“ segir Bryndís í viðtali í nýjasta tölublaði og Sjónvarpsþætti Víkurfrétta, en undanfarið hafa nokkrir skólar í Reykjanesbæ verið að forprófa smáforritið Froskaleikir Hoppa, til undirbúnings læsi, sem Bryndís gefur út fljótlega í nóvember.

Fyrir skömmu lét Bryndís mæla og meta allar tölur í mælingunni, þannig að árangurinn varð ekki bara sýnilegur og heyranlegur, heldur einnig marktækur. „Það er mjög ánægjulegt. Þegar hægt er að staðfesta árangur með tölfræði að munurinn er marktækur, er efnið að skila árangri,“ segir Bryndís og bætir við að forritið undirbúi börnin enn betur undir læsi, bæði á leikskóla- og grunnskólastigi.

Þegar Bryndís byrjaði að starfa sem talmeinafræðingur á sínum tíma var lítið til af þjálfunarefni og engin mælitæki eða próf til að meta læsi hjá börnum og fullorðnum. Hún er þakklát skólasamfélaginu fyrir að hafa tekið svo vel í efnið sem hún hefur hannað, það sé grundvöllurinn fyrir framþróuninni - og árangrinum sem hlýst. Á lifandi og skemmtilegan hátt sinnir Bryndís mikilvægu hugsjónastarfi. Það sést glöggt í áhugasömum andlitum barnanna, foreldranna og kennaranna sem hún hittir í starfi sínu.