Andinn og samkenndin

Mikið svakalega var gaman á Ljósanótt. Ég ætla ekki að telja upp marga atburði heldur að minnast á andann, stemmninguna sem maður upplifði á lang flestum stöðum. Einhverjir kunna að segja að bæjarhátíðir séu ekki merkilegar og margir eiga það til að tala um þær eins og eitthvað lummó dæmi en þegar farið er í saumana þá eru þær stórmerkilegar. Þær sameina fólk og fjölskyldur. Sjá mátti marga hópa hittast úr sama árgangi en árgangagangan er eins og einhver myndi segja gargandi (gangandi er kannski orðið) snilld. Og það var vel til fundið hjá Reykjanesbæ að fá fulltrúa 50 ára afmælisárgangs til að flytja ræðu dagsins eftir gönguna. Gunnar Oddsson, fyrrverandi íþróttakappi gerði það afar vel. Þúsundir fylgdust með. Heimatónleikar voru ein skemmtilegasta nýjungin í dagskránni. Í stað rándýrra aðkeyptra skemmtikrafta á stóra sviðinu á föstudagskvöldi buðu eigendur fjögurra gamalla húsa í gamla bænum á „heimatónleika“. Það atriði hlýtur að verða endurtekið og líklega verða stærra í sniðum á næsta ári.

Það eru kannski ekki allir sammála um blöðrusleppingar en samstaða og samkennd var mjög ríkjandi á Ljósanótt. Allir voða glaðir og höfðu gaman af því að hitta vini og ættingja. Bæjarstjórinn segir í pistli sínum að nú eins og vanalega verði farið yfir það hvað megi fara betur á næstu Ljósanótt. Hér er ein ábending í blálokin. Flugeldasýningin er mjög skemmtileg og eitthvað sem flestir vilja alls ekki missa af en upphafið að Ljósanótt var ljósa-listaverkið á Berginu og tendrun á því. Einhvern veginn fór það ofan garð og neðan núna. Við skulum gefa því smá pláss í dagskránni, eftir flugeldasprengjur og kveikja aðeins fyrr þannig að Bergið ljómist upp á meðan flugeldasýningunni stendur.

Bæjarhátíð Sandgerðinga er einnig nýafstaðin og þótti takast vel. Hins vegar hafa gamlir og brottfluttir Sandgerðingar verið í sambandi við ritstjórn og bent á að það hafi verið afturför að færa hátíðina frá hafnarsvæðinu og að skólanum og íþróttahúsinu. Við hafnarsvæðið sé lífæð bæjarins og þar sé einnig að finna veitingahús bæjarins, þekkingarsetur með sína sali, listatorg og fleira. Þessir áfangastaðir séu komnir nokkuð úr leið hjá gestum Sandgerðisdaga þegar hátíðarsviðið sé komið í hinn enda bæjarins. Þessum athugasemdum er hér komið á framfæri við hlutaðeigandi aðila.

Nú má segja að haustið sé tekið við af sumrinu. Við hverjum lesendur til að vera áfram í góðu sambandi við okkur með ábendingar um áhugavert efni í blaðið okkar, vefinn og sjónvarpsþáttinn. Sendið okkur línu á vf@vf.is.