Af hverju mætir fólk ekki á fundi?

Það var fámennt á mótmælafundi gegn kísilveri Thorsil í Helguvík í félagsheimili hestamanna í vikunni. Forsvarsmaður fundarins, Benóný Harðarson segir að sú staðreynd að niðurstaða kosninga sem framundan er um breytingu á deiliskipulagi í Helguvik, verði ekki bindandi fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar, hafi haft þau áhrif að fáir mættu á fundinn.

Þetta má vel vera rétt hjá Benóný en er ekki hugsanlegt að það séu líka önnur skilaboð í slakri mætingu. Fólk í Reykjanesbæ telji bara komið gott í mótmælum gegn kísilveri Thorsil í Helguvík. Mótmælin hafa ekkert að segja í þessu máli. Það er ekki aftur snúið eins og bæjarstjórn hefur sagt og Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs sagði það á fundinum og einnig við fjölmiðla að honum loknum. Reykjanesbær þarf að standa við gerða samninga við Thorsil. Ef bæjarfélagið gerir það ekki muni taka við málaferli sem gæti kostað Reykjanesbæ stórar fjárhæðir vegna skaðabóta. Er kröftum fulltrúa Reykjanesbæjar ekki betur varið í Sóknina  sem er verkefni sem snýr að því að endurreisa fjárhag bæjarfélagsins en að standa í svona máli? Mótmælendur hafa komið sínum málflutningi á framfæri og þeir hafa vakið athygli á mengunarþættinum sem margir hafa áhyggjur af. Umhverfisstofnun hefur gefið grænt ljós á þann þátt og Thorsil hefur fengið starfsleyfi. Benóný segir í viðtali við VF að það sé alltaf hægt að komast út úr samningum ef viljinn er fyrir hendi. Það er óraunhæft hjá honum að halda slíku fram þegar vitað er að fyrirtækið er þegar búið að kosta til miklum fjármunum í undirbúning og gera sölusamninga til áratugar. Það fylgir því ábyrgð að gera samning um stórframkvæmdir og að sama skapi óábyrgt að halda því fram að það sé hægt að henda slíkum samningum út um gluggann eins og ekkert sé.


Friðjón Einarsson sagði við visir.is að hann harmaði það hvað íbúafundir væru illa sóttir. Það gæfist íbúum kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri og leggja til breytingar um skipulag. „Við erum búin að bjóða fólki upp á að breyta skipulagi, koma með hugmyndir, minnka iðnaðarsvæði, en því miður mætir fólk ekki á fundi. Það er þar sem áhrifin eru mest.“

Páll Ketilsson.