Af hverju erum við svona vond á samfélagsmiðlunum?

Samfélagsmiðlar hafa verið í umræðunni að undanförnu. Þeir eru magnað fyrirbæri og með svakalegri uppfinningum sögunnar þar sem internetið nær hæstu hæðum. En auðvitað eru slæmar hliðar á þeim eins og mörgu öðru. Þar eru gerðar tilraunir til að taka einstaklinga „af lífi“ ef þeir hafa gert eitthvað eða ekki gert eitthvað sem samfélagsmiðlungum þóknast ekki. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Suðurnesjamanna úr Garðinum, fékk að finna fyrir óvæginni gagnrýni og umræðu eftir að hafa greitt atkvæði gegn því að öryrkjar og aldraðir fengju afturvirka hækkun.

Aðspurður í viðtali við Víkurfréttir um málið segir hann viðbrögðin við því að hann hafi hafnað hækkuninni að sér hafi liðið eins og landinu eftir veðurhaminn á dögunum. „Veðrið lamdi landið á 70 til 80 kílómetra hraða og lamdi lífið úr því í smástund. Mér líður þannig og er tómur að innan. Það er auðvitað djöfullegt að lenda í því að fólk ráðist á mann með svo miklu offorsi. Það hefur eðlilega áhrif á mann, maður er bara mannlegur. Verst er það auðvitað fyrir fjölskylduna, eiginkonu, börn og aldraðan föður og bræður. Það sem tekur mig þyngst er að fjölskyldan sé bogin yfir þessu. Í þinginu eru þingmenn að skiptast á skoðunum allan daginn. Það er heilbrigt að vera ekki öll með sömu lífsskoðun. Mér finnst að sú umræða i þinginu sé mjög heiðarleg, nánast undantekningarlaust. Úti í samfélaginu er hins vegar leyfilegt að drulla yfir menn.“

Ásmundur er einn af mörgum sem hafa vakið athygli á þessari leiðinlegu þróun sem tengist samfélagsmiðlum. Hvað er það sem fær fólk til að vera svona vont? Það er ágæt leið áður en maður skilar einhverju „vondu“ frá sér að setja sig í spor þess sem á að fá skilaboðin. Hér er ekki eingöngu verið að ræða málefni þingmannsins heldur á heildina litið. Þetta verður að breytast. Fólk er ekki vélar. Við erum öll mannleg eins og Ásmundur segir. Í viðtali í blaðinu og eins í sjónvarpsþætti vikunnar kemur þingmaðurinn og fyrrverandi bæjarstjóri í Garði víða við en hann flutti upp á land fyrir rúmum áratug og settist að í Reykjanesbæ en flutti síðar út í Garð. Ásmundur gefur út bók um Hrekkjalómafélagið fyrir þessi jól en þar segir hann sögur frá þessu sérstaka félagi sem var uppi á sínum tíma í Vestmannaeyjum, þar sem Ási er fæddur og uppalinn en hann var einn af hressum peyjum í félaginu.

Í jólablaði VF er mikið af góðu lesefni, fjölmörg viðtöl og frásagnir frá Suðurnesjamönnum sem hafa verið að gera góða og skemmtilega hluti á árinu. Við kíkjum inn í sannkölluð jólahús og spyrjum fólk út í jólin, ræðum við mann sem fann týndar systur sínar og skoðum að margra mati mögnuðustu íþróttasögu síðustu aldar, þegar Víðismenn í Garði gerðu Garðinn frægan á fótboltavellinum. Og margt, margt fleira! Njótið vel á aðventunni!