Aðventan og sveiflan á Suðurnesjum

Landsbanki og Íslandsbanki hafa haldið opna fundi á Suðurnesjum á síðustu vikum og farið yfir stöðu mála og framtíðarsýn. Sérfræðingar beggja banka eru sammála því að það sé aðeins að hægja á uppsveiflunni hér á landi. Sveiflan verði þó áfram og meiri en annars staðar á Suðurnesjum, þökk sé fjöri í ferðaþjónustunni. Áfram er spáð verulegum vexti í tengslum við Keflavíkurflugvöll.

„Staðan á Suðurnesjum er mjög góð, næg atvinna er í boði og vöxtur á flestum sviðum hefur verið mikill og mun verða áfram. Það er ánægjulegt en einnig áskorun og mikilvægt að aðilar í framlínu svæðisins stilli saman strengina til framtíðar litið,“ segir Arnar Hreinsson, útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ í viðtali í Víkurfréttum. Hann segir að bankinn hafi fundið fyrir betri stöðu hjá almenningi og fyrirtækjum, mikil ásókn hafi verið í fasteignalán en þó sé áberandi að lang flestir séu varkárari og meðvitaðri um hvað þeir séu að gera en fyrir bankahrunið. Það sé jákvætt.

Á báðum þessum fundum voru fulltrúar frá fyrirtækjum sem hafa vaxið á undanförnum árum, Skólamatur ehf. og Flugakademía Keilis á Ásbrú. Bæði fyrirtæki hafa nýtt sér tækifæri til að vaxa og dafna með útsjónarsemi og frumkvæði. Það er mjög jákvætt og það eru mörg fleiri dæmi um slíkt á Suðurnesjum. Víkurfréttir hafa sagt frá mörgum og við erum reglulega að gera það.

En nú eru jólin framundan með tilheyrandi jólafjöri, tónleikum og jólaverslun. Í blaði vikunnar er sagt frá fjölda tónleika á svæðinu en VF hefur einnig tekið þátt í verkefni með nokkrum verslunum á svæðinu en það er jólaleikurinn „Jólalukka VF og verslana“. Sex þúsund vinningar, margir stórir og veglegir eru í boði og verða „skafnir“ af jólaskafmiðum fyrir þessi jól.

Við segjum bara: Njótið aðventunnar. Hún er einn yndislegasti tími ársins.

Páll Ketilsson
ritstjóri