Að velja sér bakland

Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Ungmennin eru okkur hugleikin í Víkurfréttum þessa dagana. Bakgrunnur þeirra er misjafn alveg eins og að áhugamálin sem eru fjölbreytt.
 
Davíð Guðbrandsson fann sig ekki í fótbolta, sundi eða körfubolta sem að hans mati þurfti að geta til að meika það í heimabænum þegar hann var barn og unglingur. Hann prófaði að fara í Leikfélag Keflavíkur og var tekið þar opnum örmum. „Það er líka mikill þroski fyrir ungt fólk að taka þátt í leikfélagsstarfi. Þetta er góður félagsskapur fólks á öllum aldri og þessu fylgir mikil ábyrgð,“ segir Davíð í viðtali í Víkurfréttum.
 
Drengjafimleikar eiga sér mjög stutta sögu hjá Keflavík en fulltrúar félagsins, 9-14 ára, unnu fyrsta bikarmeistaratitilinn í sögu þess, á bikarmóti í áhaldafimleikum um síðustu helgi. Aðrir keppendur frá Keflavík kræktu sér í brons eða unnu sér inn þátttökurétt á Íslandsmótinu. Þar er þjálfarinn Vilhjálmur Ólafsson greinilega að vinna gott starf fyrir félagið, laða að og draga fram það besta í sínu fólki. 
 
Yfir 100 skólakrakkar hafa sótt um sumarvinnu hjá Saltveri í Njarðvík og 20 ungmenni starfa þessa dagana á næturvöktum í loðnuvinnslu þar. „Þeir eru örugglega dauðþreyttir í skólanum. Buddan verður í lagi hjá þeim og það er vonandi að skólinn sætti sig við það,“ segir Guðmundur Jens Guðmundsson, framleiðslu- og útgerðarstjóri, í samtali við Víkurfréttir. Það er ekki oft sem skólakrökkum gefst tækifæri til að vinna sér inn góðar tekjur á stuttum tíma og kynnast fjörinu og puðinu sem fylgir vertíðum. Sú var tíðin að skólar gáfu nemendum jafnvel frí til þess að hægt yrði að bjarga slíkum verðmætum í vinnslu. 
 
Til er hópur unglinga sem skortir sjálfsöryggi til að finna styrkleika sína og stuðninginn sem þarf til að virkja þá. Þórunn Íris Þórisdóttir, sem hefur umsjón með Velferðarsjóði Suðurnesja, segir fleira ungt fólk á menntaskólaaldri eiga í vandræðum en áður. Unga fólkið sem leiti til hennar geri sér stundum ekki grein fyrir því að ýmislegt er í boði til að efla sjálfsmynd þess til að breyta stöðu sinni. „Margir sem koma hingað þurfa fyrst og fremst á hvatningu og stuðningi að halda sem þeir fá ekki heima. Þeir koma jafnvel stoltir hingað til að segja frá góðum árangri sem þeir hafa náð í námi eftir að hafa þegið styrk úr Velferðarsjóði fyrir skólagjöldum, bókakostnaði og skólamat,“ segir Þórunn Íris í forsíðufrétt í Víkurfréttum. 
 
Þótt baklönd unga fólksins séu misjöfn heima fyrir, þá eru þau samt víða í samfélaginu og þar er vel hægt að ná fram því besta, leyfa því að prófa fjölbreyttar leiðir til að finna sig; hvort sem það er í námi, vinnu eða félagsstarfi. Svo má ekki gleyma að hrósa þeim og hvetja.