„Gamli bærinn sem fóstraði mig“

Eyþór Sæmundsson blaðamaður skrifar

Sagði skáldið Gunni Þórðar í lagi sem olli einhverju fjaðrafoki á síðasta ári. Til að byrja með vil ég taka það fram að ég er frá því nýlega íbúi í gamla bænum í Keflavík. Ég bý þar í litlu 90 ára gömlu bárujárnshúsi við eina af rótgrónustu götum bæjarins. Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af nágrannavörslu. Ég get stólað á íbúa í háhýsum fyrir aftan mig þess að fylgjast með litla krúttlega húsinu mínu, enda gnæfa þau á sínum fimm hæðum yfir garðinn hjá mér. Eftir að umræðan hófst um reitinn á Hafnargötu 12 fór ég að hugsa hvað varð til þess að háar byggingar fyrir aftan mig fengu að rísa á sínum tíma. Steinsnar frá umræddum húsum stóð til að reisa átta hæða byggingar árið 2000 en ekkert varð af þeim áformum. Það var vegna þess að íbúar létu til sín taka. 522 íbúar mótmæltu byggingunni sem átti að vera með bílastæðakjallara og öllu, þannig að hætt var við allt saman.

Ég ætla ekki að leggja dóm á hversu falleg húsin verða á Hafnargötu 12. Byggingarlist er svo breytileg. Auk þess er ekki haldið í einn sérstakan stíl á Hafnargötu þannig að fyrirmyndin er ekki góð. Mér þykir það þó ánægjulegt að til stendur að lappa svona duglega upp á Fishershús og nágrenni þess. Þar fær gömul og klassísk íslensk byggingarlist að njóta sín í beinu framhaldi af Duus húsum sem risu úr öskunni fyrir ekki svo löngu og þykja nú prýði bæjarins. Ég vil ekki taka í sama streng og fyrrverandi forsætisráðherra okkar og krefjast þess að öll hús Íslands eigi að vera eins og að Guðjón Samúlesson hafi hannað þau. Það þarf þó að vera ákveðið jafnvægi - þessi hárfína lína þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Ég skil líka vel að fólki þyki gamli bærinn ekki fallegur. Fólk hefur mismunandi smekk sem betur fer. Mörgum sárnaði að heyra það frá utanbæjarmanni á hitafundi á dögunum að gamli bærinn væri ekki fallegur. Ef við ætlum að ræða um fegurð fasteigna þá verður tímabilsins í kringum síðustu aldamót ekki minnst fyrir fagurfræði í Reykjanesbæ. Ég leyfi mér að efast um að áhugafólk um hönnun og arkitektúr þyrpist til Innri-Njarðvíkur í framtíðinni til þess að berja öll fjölbýlishúsin þar augum. Þó er aldrei að vita hvort gráir og fölbrúnir kassar þyki sérstaklega frumlegir og fallegir í framtíðinni.

Tilfinningar brjótast upp á yfirborðið þegar þessi gamli bæjarhluti berst í tal. Þetta er nefnilega hjarta bæjarins - eins klisjukennt og það hljómar. Þarna hófst byggðin í Keflavík og flestir þeir sem eru „hreinræktaðir“ Keflvíkingar þurfa ekki að leita langt aftur til þess að tengja við gamla bæinn. Það er skiljanlegt að íbúar vilji varðveita þá stemningu sem fylgir þessum bæjarhluta, þetta er það eina sem tengir marga við upprunann.

Eyþór Sæmundsson
Blaðamaður Víkurfrétta