„Ég rétti aldrei upp hönd“

Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Markmið með námi er ekki einungis að auka skilning á námsefni og færni til að takast á við og leysa ólík verkefni. Félagsleg færni, viðhorf til lífsins, skoðanamótun, hreyfiþroski og víðsýni eru meðal þess sem móta hvern og einn einstakling á skólagöngu. Frá sex ára aldri verjum við tíu árum í grunnskóla og á þessum árum mótast einstaklingurinn og persónugerð hans mest. Lagður er grunnur að næstu skrefum í framtíð hans.

Því miður ná ekki allir nemendur að finna styrkleika sína í grunnskólanámi, eru ringlaðir og áttavilltir. Í daglegu tali eru margir þeirra kallaðir „brottföll“. Jóhanna Helgadóttir er ein þeirra sem fannst hún misheppnaður námsmaður. Hún fékk litla hjálp frá ómenntuðum foreldrum sínum við heimanámið og þyrsti alltaf í að skilja hvers vegna námið var henni erfitt. „Ég var áhorfandi í grunnskóla og FS, ekki þátttakandi. Ég rétti aldrei upp hönd,“ segir Jóhanna í viðtali í nýjasta tölublaði Víkurfrétta. Hún gafst ekki upp, lauk stúdentsprófi og kennaraprófi og hefur beitt kröftum sínum í að finna leiðir til að bæta menntun barna. Jóhanna stóð upp á opnum fundi í Hljómahöll fyrr í haust og sagði sína sögu. Þar stóð Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, upp og klappaði fyrir henni.  

Í landafræðiáfanga í FS leggur Ester Þórhallsdóttir kennari áherslu á að nemendur hennar horfi út fyrir rammann og skólastofuna við gerð verkefna. Fjórir nemendur hennar, Valgerður Kjartansdóttir, Rakel Ólöf Andrésdóttir, Bryndís Sunna Guðmundsdóttir og Kristín Rán Júlíusdóttir, tóku hana á orðinu og lögðu mikinn metnað í verkefni um átaksvæði. „Okkur langaði að tala við manneskju sem býr á Gaza svæðinu, sjá hvernig hlutirnir hafa breyst þar og fá beina tengingu við staðinn. Við vildum ekki notast við fréttasíður því þar eru oft hagsmunaöfl sem hafa áhrif,“ segja námsmeyjarnar fjórar í viðtali í Víkurfréttum og í nýjasta þætti Sjónvarps Víkurfrétta. Þær hefðu getað notað einföld leitarforrit og áður birt efni en vildu heldur nýta sér samfélagsmiðla eins og Facebook og Vine til að ná beinu sambandi við íbúa á átakasvæðinu. Fyrir vikið varð upplifunin af verkefninu raunverulegri, eftirminnilegri og skildi meira eftir.

Hugsjónafólk hefur í tímans rás farið eigin leiðir til þess að ná markmiðum sínum og hreyft við samtíðarfólki sínu. Margir hafa orðið öðrum góðar fyrirmyndir og rutt mikilvægar brautir. Við þurfum á svona fólki að halda.