Vinnum saman

E-listinn í Vogum leggur áherslu á að vinna með öðrum sveitarfélögum að sameiginlegum málum. Fulltrúar E-listans í sameiginlegum nefndum og stjórnum undir hatti Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) hafa tekið hlutverk sitt þar alvarlega og sýnt frumkvæði í mörgum málum.


Suðurnesin eru eitt atvinnusvæði og að vissu leyti Suðvesturhornið allt. Meirihluti vinnandi fólks í sveitarfélagi okkar vinnur utan þess við hin ólíkustu störf . E-listinn vill gera allt sem hægt er til að fjölga atvinnutækifærum í Vogum og á Vatnsleysuströnd en jafnvel þótt við náum þar góðum árangri mun nokkur fjöldi fólks ekki finna hér starf við sitt hæfi. Fólk mun áfram sækja vinnu í Flugstöðina, Bláa lónið, Álverið í Straumsvík og fjölda minni fyrirtækja og stofnanna í nágrannasveitarfélögum.


Við erum nú í gjöfulu samstarfi við Garð og Sandgerði um barnaverndar- og félagsmál og því var komið á að frumkvæði E-listans. Við kaupum þjónustu af Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar ásamt Garði og Sandgerði og hefur það gefist vel.


Fulltrúi E-listans í SSS átti frumkvæði að því að allt samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum er nú til gagngerrar endurskoðunar í því skyni að það verði skilvirkara og meira fáist fyrir það fé sem okkar sveitarfélag leggur í sameiginlegan rekstur á Suðurnesjum, svo sem í heilbrigðiseftirlit, sorphirðu, sorpförgun, öldrunarmál, brunavarnir, menningarráð o.fl.


Sveitarfélagið Vogar hefur tekið virkan þátt í aðgerðum gegn atvinnuleysi svo sem Virkjun á Ásbrú og virkniúrræðum fyrir ungt fólk.


Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að svæðisskipulagi fyrir Suðurnes þar sem leitast er við að samræma landnýtingu og atvinnustefnu Sveitarfélaganna. Fulltrúar E-listans hafa sinnt því starfi af áhuga og drög að svæðisskipulagi hefur tvívegis verið lagt í dóm umhverfis- og skipulagsnefndar og bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga.


Líklega er Hitaveita Suðurnesja stærsti ávöxtur samstarfs sveitarfélaganna. Þau byggðu hana upp á nokkrum áratugum af þvílíkum myndarskap að byggðirnar hér voru lengi vel með hvað ódýrast heitt vatn og rafmagn á öllu landinu. Öll sveitarfélögin, stór og smá, réðu ferðinni þar til fyrirtækinu var breytt í hlutafélag fyrir nokkrum árum, en þá fékk eitt sveitarfélagið þar alræðisvald og 2% hlutur okkar gaf okkur engin völd. Það var því gæfuspor að við gátum selt megnið af okkar hlut á hæsta mögulega verði, fengið vel á annan milljarð í reiðufé fyrir hlut sem metinn var á 200 milljónir, greitt niður okkar óhagstæðustu lán og stofnað framfarasjóð okkar fyrir afganginn. Sá sjóður hefur ávaxtast mjög vel og í engu rýrnað í hruninu og er nú tæpir 1,4 milljarðar króna.


Á næsta kjörtímabili mun E-listinn leggja áfram rækt við margs konar samstarf við önnur sveitarfélög okkur íbúunum til hagsbóta.


Þorvaldur Örn Árnason
Skipar 6. sæti E-listans í Vogum