Vilt þú vera leigjandi í eigin húsi?

Reykjanesbær hefur selt allar fasteignir sínar til Eignarhaldsfélags Fasteignar (EFF). Bærinn borgar nú 90 milljónir króna á MÁNUÐI í leigu. Eitt þúsund milljónir á ári! Þetta eru miklir peningar.

Er Fasteign gjaldþrota?
Meirihlutinn reynir nú í örvæntingu að sannfæra íbúa um að þátttaka bæjarins í EFF hafi verið gæfuspor, og vísar þar í skýrslur „óháðra“ aðila. Hvernig geta menn komist að slíkri niðurstöðu þegar forsendur liggja ekki fyrir? Enn hefur EFF ekki skilað ársreikningum fyrir árið 2009, en þeir áttu að liggja fyrir í apríl. Hvers vegna? Er eitthvað að fela? Hver er raunveruleg staða EFF? Sumir segja að félagið sé einskis virði. Að það sé tæknilega gjaldþrota. Ef svo er, þá á Reykjanesbær ekki neitt í EFF. Er það gæfuspor?

Sólpallur en ekkert hús
Þetta eru allt getgátur. Staðreyndin er hins vegar sú að Reykjanesbær á aðeins 10% í EFF en greiðir ríflega 40% af leigutekjum félagsins. Eigum lítið en borgum mest af öllum. Önnur staðreynd er sú að söluhagnaður af eignum bæjarins til EFF var aðeins að litlum hluta notaður til að greiðar niður skuldir bæjarins, eins og ætlunin var að gera. Meiriparturinn var notaður í framkvæmdir. Að mínu mati er það með öllu órökrétt að selja eignir sínar og eyða hagnaðinum í framkvæmdir. Svipað og ef ég myndi selja húsið mitt, leigja það af kaupandanum og nota söluandvirðið, til að búa til glæsilegan sólpall við húsið. Algerlega órökrétt!

Himinháar vaxtagreiðslur
Meirihlutinn vísar í sterka eignastöðu bæjarins, að eignir séu meiri en skuldir. Hljómar vel. En sannleikurinn er sá að HS Veitur styrkja eignastöðu bæjarins gríðarlega. Bærinn á líka ótalmargar tilbúnar lóðir sem gerðar voru klárar í öfgabjartsýniskasti. Á meðan þær eru ekki seldar þá borgar bærinn háa vexti af þessum eignum. Upphæðir með mörgum núllum fyrir aftan. Hefði ekki mátt fara hægar í sakirnar?

Beitum rökhyggju og skynsemi í ákvarðanatökum! X-B!

Silja Dögg Gunnarsdóttir

í 2. sæti Framsóknar í Reykjanesbæ