Við þurfum peninga til að kaupa gulrætur?

Góð heilbrigðisþjónusta er hornsteinn samfélagsins. Íbúar á Suðurnesjum hafi áratugum saman barist fyrir bættri heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Á síðustu misserum hafa stjórnvöld ekki gert Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) jafnhátt undir höfði og öðrum sambærilegum stofnunum á landinu. HSS er fjársvelt og nú hefur skurðstofunum okkar verið lokað. Á þeim er verðmætur búnaður sem einstaklingar og samtök hafa m.a. safnað fyrir árum saman og fært HSS að gjöf með hlýjum hug.


Þarfir íbúa eiga að ráða
Eitthvað verður að gera. Svona getur þetta ekki gengið lengur. Við hjá Framsókn teljum að með því að færa stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í hendur sveitarfélaga á Suðurnesjum væri hægt að styrkja stoðir stofnunarinnar verulega og bæta þjónustuna. Þessi yfirfærsla yrði gerð með þjónustusamningi við ríkið. Stofnunin fengi þá vissa upphæð á ári, sem stjórnendur hér, gætu ráðstafað og tryggt þannig bestu mögulegu þjónustu og auðveldað okkur aðgengi að sérmenntuðu starfsfólki sem nú skortir. Ákvarðanataka og stjórnun yrði með því móti meira í takt við vilja og þarfir íbúa á svæðinu.


Leigjum skurðstofuna
Það er óhæft að fjárveiting á hvern íbúa á Suðurnesjum sé einungis um þriðjungur af því sem hæst er gefið til annarra heilbrigðisstofnana á landinu. Við verðum að skapa meiri tekjur og ein leið til þess er að leigja út skurðstofur HSS til einkaaðila. Þannig væri hægt að fá tekjur í stað þess að láta þær standa auðar og engum til gagns. Það er órökrétt að okkar mati og skerðir öryggi bæjarbúa.


Eflum heilsugæsluna
Mikið hefur verið rætt um skurðstofurnar og sjúkrahúsið en minna um heilsugæsluna sem veitir okkur alla grunnþjónustu. Þar er m.a. mæðra- og ungbarnaeftirlitið, bráðamóttakan og sykursýkismóttakan. Við megum ekki gleyma mikilvægi heilsugæslunnar og verðum að leggja áherslu á að efla hana með öllum ráðum. Tekjur af leigu skurðstofunnar væri t.d. hægt að nota til að styrkja heilsugæsluna.


Hvar er gulrótin?
Fyrir utan fjársvelti glímir stofnunin við skort á læknum og hjúkrunarfólki. Ein af ástæðum þess er að það er engin hvatning til staðar. Stofnunin getur ekki boðið fólki „neina gulrót“ eins og bifreiðastyrk, eins og áður var. Þeir sem sækja vinnu til HSS og búa á höfuðborgarsvæðinu eru raunverulega að skerða tekjur sínar með akstrinum hér á milli. Við teljum að þessu verði að breyta og stjórnendur HSS verði að geta boðið fólki betur og mannað þannig stöðurnar sem nú vantar sárlega.


Stjórn heilbrigðisþjónustu í heimabyggð! X-B!


Eyrún Jana Sigurðardóttir, 3. sæti Framsóknar í Reykjanesbæ