Við höldum áfram

Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að vera bjartsýnn og jákvæður og halda áfram þrotlausri vinnu við að ná settum markmiðum. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ hefur unnið eftir kraftmikilli framtíðarsýn í atvinnumálum síðustu ár. Sú framtíðarsýn miðar að því að skapa hér á svæðinu fjölbreytt atvinnutækifæri sem gefa íbúum bæjarins kost á fleiri atvinnumöguleikum og hærra launuðum störfum. Þessi stefna er mörkuð áður en áföll eins og brotthvarf hersins dynur á okkur og fjöldi fólks missti vinnuna. Sú uppbygging sem átt hefur sér stað uppá Ásbrú hvar nú eru starfandi um 40 fyrirtæki er lýsandi fyrir þá vinnu, sem unnin hefur verið í nýsköpun og stuðningi við frumkvöðla . Auk þess að stofna til skóla og nýta þannig tómu íbúðirnar undir stúdentagarða var rétt skref. Það tekur tíma að búa til heilt samfélag en að Ásbrú virðist það vera að takast. Barátta meirihlutans í bæjarstjórn fyrir komu álvers, gagnavers, kísilverksmiðju og annara tækifæra en stóriðju er svo hinn anginn af baráttunni enda mikilvægt að setja ekki öll eggin í sömu körfu og sá fræjum atvinnuuppbyggingar eins víða og kostur er. Þannig næst árangur.

Framboðslisti Sjálfstæðismanna hefur að nánast öllu leiti verir endurnýjaður fyrir þessar kosningar með hæfu fólki, sem vill leggja sitt af mörkum og halda áfram að vinna að þessari framtíðarsýn undir forystu Árna Sigfússonar. Að byggja upp öflugt atvinnulíf er ekki spretthlaup. Það eru engar skyndilausnir og fjölmargar hindranir eru á veginum. Þetta er langhlaup þar sem hoppa þarf yfir hindranir, skauta framhjá mótlæti og halda einbeitingu þó á móti blási.


Við ætlum að halda áfram uppbyggingunni og komast yfir endamarkið saman.

Jóhann Snorri Sigurbergsson
Frambjóðandi X-D í Reykjanesbæ