Við höfum það sem þarf

Kæru samferðamenn.

Nú göngum við til kosninga á mestu umbrotatímum okkar unga lýðveldis. Fjöldi manna og kvenna bjóða nú fram krafta sína til að hafa áhrif á samfélag sitt og setja fram mismunandi hugmyndir um hvernig gerð samfélagsins hentar best.


Sjaldan ef aldrei hefur nauðsyn þess að líta yfir farinn veg og ákveða hvort leiðin sem farin var hafi skilað þeim lífsgæðum sem við sækjumst eftir. Það hrun sem varð á landinu okkar og víða um heim er ekki einungis efnahagslegs eðlis heldur líka félagslegt.


Það þarf engan sérfræðing til að sjá að ýmsum gildum hefur verið ýtt til hliðar og einstaklingshyggjan tekið yfir samfélagslega hugsun. Það á líka við um stjórnsýsluna. Í stað þess að sinna þjónustu og hlúa að innviðum samfélagsins hafa sveitarfélög verið rekin sem einskonar fjárfestingafyrirtæki, allar eignir seldar og gerðir rándýrir bindandi leigusamningar langt inn í framtíðina. Okkar sveitarfélag er þar engin undartekning ef ekki í farabroddi. Afleiðinguna þarf því miður ekki að rifja upp því enda erum minnt á þetta í hvert sinn sem reikningur berst inn um bréfalúguna eða farið er að versla inn nauðsynjar, sækja þjónustu fyrir börnin okkar, læknisþjónustu og flest annað.


Eitt af því sem lítið hefur verið rætt um er áhrif kunningjasamfélagsins og þöggunar á hvernig fór. Til þess að geta látið slíka hluti gerast þarf, sama hvað hver segir, samþykki samfélagsins. Það var gert með því að nota klíkuskapinn, öfundina, hagnaðarvonina og útilokunina. Annað hvort ertu með eða þú ert úti. Ef þú ekki fagnar og hyllir snilldina ertu gamaldags dragbítur sem ert á móti framþróun og velmegun. Í skólum er þetta kallað einelti og þykir ekki til fyrirmyndar og meðhöndlað sem vandamál. Þessu þarf að breyta og ekki seinna en strax.


Við þurfum að vera vakandi og óhrædd að benda á misfellurnar í litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla svo ekki verði til vettvangur spillingar og mismununar.


Það eru margir í okkar sveitarfélagi ósáttir við þá þróun sem virðist hafa orðið í sveitarfélaginu okkar síðustu ár. Það þarf að leggja alla krafta til að snúa þessari þróun við. Varla er þetta það sem við sækjumst eftir.


Fyrir mitt leyti segi ég nei takk. Ég er fædd hér og uppalin og þykir afskaplega vænt um bæinn minn og vonast til að hann verði áfram góður valkostur fyrir þau börn og ungmenni sem alast hér upp. Við stöndum frammi fyrir þeirri ákvörðun sem heild að velja okkur farveg til framtíðar. Til þess þurfum við á öllu okkar siðferðisþreki að halda. Ég vil trúa því að við höfum það sem þarf vegna þess að ég hef trú á fólkinu okkar. Þessvegna er ég í liði Samfylkingarinnar og býð fram krafta mína.


Ég vil fá virðinguna, fagmennskuna og heiðarleikann aftur í bæinn minn.

Jóhanna Björk Pálmadóttir.