Veljum D-listann

Í þeirri kosningabaráttu sem nú er senn á enda höfum við á D-lista sjálfstæðismanna lagt áherslu á umhverfismálin, fjölskyldumálin og atvinnumálin sem nú brenna mest á íbúum sveitarfélagsins. Við höfum lagt fram ítarlega stefnuskrá og málefnaskrá fyrir næstu fjögur ár og lagt í dóm kjósenda þau loforð sem gefin voru 2006 og efndir á síðustu fjórum árum. Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur á kjörtímabilinu.

Fjármálin traust

Í aðdraganda kosninga hafa fjármál Reykjanesbæjar verið til umfjöllunar eins og í flestum öðrum sveitarfélögum. Skuldir hafa hækkað á síðustu árum m.a. vegna þess að Reykjanesbær keypti meirihlutann í HS Veitum. Skuldir þess félags eru nú taldar til skulda sveitarfélagsins. Á móti hafa eignir að sama skapi þrefaldast á kjörtímabilinu vegna kaupa á jörðum, auðlindum og veitukerfum. Eignastaða Reykjanesbæjar er ein sú sterkasta af öllum sveitarfélögum landsins en tekjur hafa verið með þeim lægstu í samanburði sveitarfélaga. D-listi Sjálfstæðismanna vill styrkja tekjustoðirnar með því að byggja upp vel launuð störf sem skila íbúunum góðum tekjum og eykur um leið tekjur sveitarfélagsins. Fyrir því höfum við barist á síðustu árum og okkur skal takast að ná árangri, þrátt fyrir andstöðu og tafir af hálfu ríkisvaldsins.


Árna Sigfússon sem bæjarstjóra

Síðustu átta ár höfum við í Reykjanesbæ notið þess að hafa í forystu mann sem hefur barist fyrir hag sveitarfélagsins hvar og hvenær sem hann fær því viðkomið. Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert annað sveitarfélag hefur jafn öflugan talsmann fyrir betra samfélagi og fjölbreyttari atvinnustarfsemi en íbúar Reykjanesbæjar. Óbilandi eljusemi og áhugi hans hefur leitt af sér ótal mörg atvinnutækifæri sem nú eru mörg hver komin til framkvæmda og enn fleiri bíða handan við hornið.

Ég hvet íbúa Reykjanesbæjar til þess að veita Árna Sigfússyni áframhaldandi stuðning til forystu í málefnum sveitarfélagsins. Sá stuðningur verður aðeins tryggður með því að kjósa D-lista Sjálfstæðisflokksins.


Böðvar Jónsson
bæjarfulltrúi