Vegur til framtíðar

Við höfum oft verið gagnrýnd fyrir að vera á móti. Ég sé ekki ástæðu til annars en að vera á móti spillingu, valdagræðgi og óhófssemi. Þessu erum við á móti og við munum halda áfram að vera á móti. Við tókum ekki þátt í ólýðræðislegum og oft gruggugum vinnubrögðum. Við heitum því að standa vörð um íbúa Reykjanesbæjar, fara ofan í saumana á valdasulli síðustu ára með því að rannsaka til hlítar fjármálastjórnun bæjarins. Hér viljum við endurvekja lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð.


Við viljum sjá úrbætur í félagslega kerfinu og bjóða grunnskólabörnum upp á heitan mat í hádeginu þeim að kostnaðarlausu. Við viljum stuðla að vellíðan bæjarbúa og vinna að því að hér sé mannsæmandi heilbrigðisþjónusta. Við ætlum okkur að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki sem hér eru eða hingað vilja flytja og sýna ábyrgð í gjörðum okkar og hafa réttlætið að leiðarljósi við allar ákvarðanir.


Við heitum því að fara ekki í samstarf með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar og við munum beita okkur fyrir því að í meirihluta, með okkur innanborðs, verði ráðinn bæjarstjóri með menntun og reynslu til að stýra bæjarfélaginu okkar.

Vinstrihreyfingin grænt framboð er komin til að vera.


Þormóður Logi Björnsson,
2. sæti Vinstrihreyfingin grænt framboð í Reykjanesbæ