Var Hitaveitunni stolið?

Þegar Hitaveitu Suðurnesja var breytt í hlutafélag í mars 2001 var fyrsta skrefið stigið. Þar með var tekin ákvörðun um setja samfélagslega þjónustu inn í rekstrarumhverfi sem lýtur annarskonar lögmálum og hefur annarskonar markmið en Hitaveita Suðurnesja á sínum tíma var stofnuð um. Þetta var gert í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Félagið var framan af í opinberri eigu, þar til árið 2007 þegar 15,2% hlutur ríkisins var seldur Geysi Green Energy. Hluti af forsvarsmönnum eigenda GGE liggur undir grun um að hafa átt virkan þátt í að ræna stöndug hlutafélög og bankana innanfrá og sjást þeir þessa dagana helst flóttalegir í fréttatímum og að sögn í sérstökum næturopnum verslunum í dýrari hverfum borgarinnar. Söluferlinu var hrundið af stað af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og var orkufyrirtækjum í almannaeigu meinuð þátttaka í útboðinu. Það kom í hlut Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að ganga frá sjálfri sölunni. Þar með var hluti þessarar samfélagslegu þjónustu sem Hitaveitan í upphafi var stofnuð um komin í hendur einkaaðila.

Magma mætir
Síðasta sumar kom svo til sænskt skúffufyrirtæki, dótturfélag Magma Energy í Canada, sem vildi kaupa hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS-orku. Nefnd með ráðherravald var falið að kanna lögmæti samningsins og hefði nefndin getað komið í veg fyrir framvinduna ef vilji hefði verið fyrir hendi enda lögmæti sölunnar umdeilt. Því miður voru það einugis fulltrúar VG og Borgarahreyfingarinnar sem greiddu atkvæði gegn samningnum en Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarfokkur sameinuðust um að innsigla söluna. Þarmeð var hluti af samfélagslegri grunnþjónustu, þ.e. heitt vatn og rafmagn, komin í umsjá og eigu erlendra aðila. Móðurfélagið í Canada var stofnað snemma árs 2008 en það er um það leyti sem hagkerfisránið á Íslandi stóð sem hæst. Eignarhald Magma hefur hinsvegar ekki verið krufið til mergjar en brýn þörf er á að það verði gert áður en samningurinn um kaup Magma á hlut GGE öðlast gildi.

Mjólkurkúnni stolið
Þrátt fyrir að fjármálaráðherra hafi lagt hart að aðilum ákváðu Magma og GGE að ganga frá kaupsamningi sem tryggði Magma um 98% eignarhald í HS orku. Þetta var gert í skjóli nætur og málsaðilar neituðu að eiga eðlileg samskipti við stjórnvöld um gjörninginn og fara fram með ófriði. Stór hluti þess sem Magma „greiðir“ fyrir góssið er fenginn að láni frá íslenskum aðilum. Það verða því óhjákvæmilega þeir sem kaupa heitt vatn og rafmagn af fyrirtækinu sem á endanum munu sjá um að fjármagna kaupin. Fyrirtækið vonast eftir enn meira lánsfé frá þjóðinni og horfir m.a. til lífeyrissjóðanna. Líkast til er 65 ára framlengjanlegur nýtingarréttur á jarðhitaauðlindinni lang dýrmætasta eign fyrirtækisins og þá ráðstöfun á fyrirtækið eflaust eftir að reyna að nýta sér til fjármögnunar á hlutafjármörkuðum erlendis. ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur þó gert athugasemdir við þennan langa gildistíma og hlýtur Alþingi að gera viðeigandi ráðstafanir til styttingar. Hvað sem því líður þá hefur atburðarráðsin, að óbreyttu, leitt til þess að lungað úr Hitaveitu Suðurnesja er nú í eigu erlendra aðila og eðli málsins skv. rennur arðurinn úr landi. Hér reyndi ríkisstjórn VG og Samfylkingar án árangurs að grípa í taumana en vonandi er það enn ekki of seint.

Bæjarstjórinn fagnar
Eftir að hafa selt samfélagslega innviði á borð við skólana, íþróttahúsin og Hitaveituna fagnar bæjarstjóri Reykjanesbæjar viðskiptunum. Gleði bæjarstjórans sætir nokkurri furðu því 2009 skiluðu þeir Árni Sigfússon og Kristján Þór Júlíusson skýrslu til landsfundar Sjálfstæðisflokksins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri ráðlegt að ganga í ESB þar sem erlendir aðilar gætu þá náð forræði yfir auðlindum þjóðarinnar. Þegar þannig fer fyrir jarðhitaauðlind Suðurnesjamanna ljómar bæjarstjórinn af kæti enda orðið lítið eftir af óseldu ættarsilfri hjá sveitarfélaginu sem gæti bjargað rekstri bæjarins eins og undanfarin ár. Nú þarf einhver önnur meðöl.?

Opinber rannsókn

Framboð VG í Reykjanesbæ mun leita allra leiða til þess að vinda ofan af þeim vanda sem einkavæðing á samfélagslegri þjónustu hefur haft í för með sér. Margt skýtur skökku við í ferlinu sem hefur leitt til þeirrar niðurstöðu sem nú liggur fyrir og er brýnt að fram fari opinber rannsókn á málinu öllu. Velta þarf við hverjum steini og finnist lagalegir hnökrar á gjörningunum ber að leita ógildingar fyrir dómstólum. Meirihlutinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur hinsvegar verið þvældur inn í ferlið með margvíslegum hætti frá fyrsta degi og lítil hætta á því að þar á bæ séu menn að fara að láta í eigin gjörðir. Hvergi nokkurstaðar á landinu gekk 2007 ruglið eins langt og hjá Sjálfstæðisflokki í Reykjanesbæ og enn er allt við það sama hjá þeim.

Í yfirlýsingu frá Reykjanesbæ er reynt að skýra hvernig ráðstafa á fjármögnun sveitarfélagsins á ferlinu, þ.e. 6,3 milljarða kr. skuldabréfi, segir: „Öllum má vera ljóst að það fyrirtæki Magma er mun sterkari bakhjarl skuldabréfsins en Geysir Green Energy eftir bankahrunið og því er eðlilegt að Reykjanesbær skoði vandlega umrætt tilboð.“ Takið eftir því að, réttlætingin er „eftir bankahrunið“ sem er athyglivert því skuldabréfið er gefið út níu mánuðum eftir hrun. Með öðrum orðum má bæjarstjórn þegar hafa verið ljóst að GGE væri ekki álitlegur „bakhjarl“ efasemdir um fjárhagslegt heilbrigði GGE voru á þeim tíma á allra vitorði og komið hafði fram í fjölmiðlum að fyrirtækið væri ákaflega illa statt og í eigu gjaldþrota eignarhaldsfyrirtækja. Engu að síður var þetta gert. Við fengum greidda 3 milljarða, minna en ¼ af verðinu og svo fengum við tilbaka það sem við áður áttum í HS veitum. Sex þúsund og þrjú hundruð milljónir er hinsvegar kúlulán til sjö ára sem notendur þjónustunnar munum taka þátt í að greiða. Ég spyr bæjarbúa. Hefur meirihlutinn í Reykjanesbæ hér gætt okkar hagsmuna? Þetta er allt að gerast fyrir framan augun á okkur en samt virðist meirihlutinn ætla að halda velli ef marka má kannanir.

Ég vonast til þess að íbúar Reykjanesbæjar styðji okkur í Vinstrihreyfingunni grænu framboði í komandi kosningum til þess að hægt verði að snúa af þeirri braut glötunar sem lausnir nýfrjálshyggjunnar hafa reynst vera. Nýjir vendir sópa best og það er búið að sópa allt of miklu undir teppið.

Bergur Sigurðsson,
skipar 7. sæti á lista VG í Reykjanesbæ.