Umræðan snýst um grundvallaratriði

Mikið er nú lagt upp úr því að láta svo líta út að umræðan um HS Orku sé villandi umræða . Sjónarhorni sem þó eingöngu er haldið fram í héraðsblöðunum hér í Reykjanesbæ. Og til þess að styðja umræðuna um að þetta sé nú allt villandi, eru dregnir inn hlutir sem hafa ekkert með sölu HS Orku til Magma að gera.


Við höfum síðustu daga séð uppstillt viðtöl um hvað er rétt og hvað er rangt. Greinarhöfundar hafa spurt sig spurninga, og svarað þeim sjálfir. Vandamál þessara viðtala og aðsendu greina, er að þau hafa því miður ekkert með umræðuefnið eða spurningarnar sem hafa vaknað í kjölfarið að gera.


Kynningarstjóri HS Veitna taldi sig nauðbeygðan til að útskýra hvernig ákvörðun á verðlagningu heita vatnsins og þess kalda er háttað, og hverjir þurfa að samþykkja nái slík hækkun í gegn. Hann ræðir þó ekki hvað til grundvallar slíkri hækkun kynni að liggja. Sem hlýtur að vera kostnaður þess fyrirtækis sem þarf að hafa arð af fjárfestingu sinni. Og sá kostnaður er mikill í tilfelli HS Orku.


Bæjarstjórinn stillir upp viðtali um hvað er rétt og hvað er rangt, og tekur sama eða svipaðan pól í hæðina og gerir mikið úr því að Reykjanesbær sé ekki aðili að þeim samningum sem nú hafa verið gerðir. En er þó jafnframt fulljóst að til þess að þeir nái fram að ganga þarf Reykjanesbær að samþykkja framsal á skuldabréfi GGE til Magma, og er þar með þáttakandi í samningnum.


Þessa vinkla væri hægt að ræða endalaust, en eru bara ekki það sem umræðan snýst um. Umræðan snýst ekki um hvort Magma er gott eða vont fyrirtæki. Umræðan snýst um hvernig þessir hlutir gátu gerst. Hverjir það voru sem tóku hagsmuni einkafyrirtækja fram yfir hagsmuni bæjarins og þjóðarinnar. Umræðan snýst um grundvallaratriði. Viljum við að útlendingar ráði auðlindum þjóðarinnar. Viljum við að arðurinn af henni fari úr landi?


Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson