Umhverfismál í lamasessi

Allir flokkar sem bjóða fram lista í Sandgerði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar eru með umhverfismál ofarlega á stefnuskrá sinni. Fjölskylduvænt umhverfi, snyrtimennska, fjölbreytt útivistar- og íþróttastarf, göngu- og reiðstígar lagðir. Íbúar hafa lagt sig fram við að snyrta garða sína og laga til í næsta nágrenni en þegar kemur að fyrirtækjunum í bænum er sagan allt önnur. Rusl og drasl hrúgast upp, bílhræ út um allt og hálfbrunnar skemmur og annar óþverri er svo yfirgengilegur að fólki hrýs hugur við. Bæjarstjórnin virðist nánast ráðþrota og horfir upp á ruslið hrannast upp. Til að kóróna vitleysuna stendur til að stórauka úthlutun lóða undir atvinnustarfsemi á öllu hafnarsvæðinu og fórna Suðursvæði, móunum milli Miðtúns og Norðurtúns, fallegu griðarsvæði fugla og fólks, undir atvinnuhúsnæði. Allir heilvita menn sem bjóða sig fram fyrir þessar kosningar hljóta að sjá þvílík mengun mun fylgja þessum tillögum. Fleiri trukkar í gegnum bæinn, meira rusl og umferð þungaflutninga mun stóraukast.


Framtíðin mun dæma þá menn sem að þessum tillögum standa. Falleinkun verður þeirra hlutskipti. Kominn er tími til að atvinnustarfsemi verði færð á önnur hentugri svæði öllum til hagsbóta. Fórnum ekki fallegu griðarsvæði í hjarta bæjarins undir atvinnustarfsemi með tilheyrandi mengun. Skora ég á frambjóðendur og bæjarstjórn að sameinast um að hreinsa bæinn af rusli, aflóga gámum, bílhræjum og öðru drasli. Fyrr geta Sandgerðingar aldrei litið stoltir á sitt bæjarfélag. Fyrr mun bláfáninn ekki hanga á flaggstöngum í Sandgerði.


17.05.10
Sigurjón Gunnarsson
Norðurtúni 6
Sandgerði