Traustsins verð!

Til að geta lifað í samfélagi verðum við að treysta hvort öðru. Traust almennings til stjórnmálamanna, bankastofnana og fjármálafyrirtækja brast og þar með ákveðin stoð í samfélagi manna. Traust sem byggðist upp á mörgum árum í samskiptum manna á milli beið hnekki.


Hvað er traust?

Trausti fylgir persónuleg ábyrgð, skuldbinding og breytingar. Það byggist á einlægni, áreiðanleika, heiðarleika, dyggð og virðingu. Þeir sem bjóða krafta sína í þágu íbúa sveitarfélaga þurfa að treysta sjálfum sér, hegða sér af heilindum og axla ábyrgð. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ skorast ekki undan því.


Allir vita að traust er mikilvægt en hvernig skiljum við traust og hvernig getum við byggt upp traust? Traust er ekki mannlegt eða menningarlegt eðli heldur samviskusamlegt val. Það er í okkar valdi að treysta. Ein leiðin til að byggja upp traust er að auka gegnsæi upplýsinga, vanda áfram til verka og vera í miklum samskiptum við íbúa. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ skorast ekki undan því.


Kæri íbúi í Reykjanesbæ
Ég skora á þig að taka þátt í sveitarstjórnakosningunum 29.maí og setja X við þann lista sem þú treystir best. Við getum byggt upp blómlegt atvinnulíf í Reykjanesbæ. Skoðaðu söguna og sjáðu hverjir hafa komið að atvinnuuppbyggingu í Reykjanesbæ.


Ég treysti Sjálfstæðisflokknum í Reykjanesbæ best. Á framboðslista flokksins eru einstaklingar á öllum aldri með mikla þekkingu og reynslu. Hjá okkur ríkir mikil bjartsýni sem við ætlum að halda á lofti ásamt þekkingu, framtíðarsýn, heilindi, þor og þrautsegju.


Ingigerður Sæmundsdóttir
Frambjóðandi X-D í Reykjanesbæ