Traust skólastefna

Það skiptir ekki máli hver mamma þín er eða hvað pabbi þinn gerir, í skólanum eiga allir að vera jafnir  þegar snýr að tækifærum til menntunar. Við erum ólík og skólinn þarf að taka við nemendum á þeirra forsendum ekki samkvæmt einhverjum stöðlum.
Vinstrihreyfingin grænt framboð vill bjóða nemendum grunnskólanna upp á heitar máltíðir í hádeginu þeim að kostnaðarlausu. Þegar við höfum komið þessi í verk langar okkur einnig að skoða hvort grunnskólar geti ekki boðið upp á morgunmat börnum að kostnaðarlausu. Mikilvægt er á þessum erfiðu tímum að við getum tryggt það að börnin okkar fá að minnsta kosti eina heita máltíð á dag.

Við viljum skoða hvort það sé ekki hagstæðara og betra að flytja félagsmiðstöðvarnar aftur inn í grunnskólana. Við teljum að það sé mikilvægt að nemendur geti sótt skemmtun stutt frá heimili sínu, þar sem krakkar sem þau þekkja mætta einnig. Við viljum hlúa að börnunum okkar og gera þeim sem auðveldast að stunda gott félagslíf. Það er vitað mál að þeir sem eru virkir í félagslífinu og í íþróttum standast frekar þær freistingar sem eru allt í kring um okkur.

Börnin eru framtíðin, við teljum að það sé mikilvægt að tryggja þeim sem besta þjónustu í skólanum. Mikilvægt er að koma til móts við einstaklinga eins og þeir eru en ekki eins og við viljum hafa þá. Reykjanesbær á að hafa pláss fyrir alla. Vinnum saman að því að gera skólagöngu barna og unglinga sem besta og ánægjulegasta.

Þormóður Logi Björnsson,
2. sæti á lista Vinstrihreyfingar græns framboðs í Reykjanesbæ