Tíminn flýgur – setjum börnin í forgang!

Fyrir tæpum mánuði síðan eignuðumst við hjónaleysin okkar annað barn og allt i einu er litla barnið okkar, sem verður 4. ára í lok þessa árs, orðinn stóri strákurinn. Ég get svarið það að hann stækkaði um helming á þessari einu nóttu og það rann upp fyrir mér hvað tíminn líður ótrúlega hratt! Innan fárra ára verður eldri drengurinn okkar orðinn skólastrákur og enn styttra er þar til við þurfum á daggæslu að halda fyrir þann yngri.
Sá raunveruleiki sem nú birtist okkur er þessi:


• Börn í Reykjanesbæ komast inn á leikskóla í kringum 2. ára aldurinn og þurfa því margir foreldrar að leita til þjónustu dagmæðra þegar fæðingarorlofi líkur. Eftir því sem ég kemst næst er algengt mánaðargjald dagmæðra um það bil 70.000 kr. Á móti koma umönnunargreiðslur bæjarins til foreldra sem á síðasta ári lækkuðu úr 30.000 kr. í 25.000 kr. á mánuði. Greiðslurnar lækka nú, einmitt þegar kreppir að fjölskyldum!


• Skjólstæðingar Frístundaskólans hafa þurft að þola mikinn niðurskurð en meðal annars hefur vistunartíminn verið styttur og akstur í tómstundir lagður af.


• Hvatagreiðslur frá bænum eru nú 7000 kr. á ári. Hér er um er að ræða mjög lága upphæð þegar haft er í huga að ársgjöld tómstunda fyrir börn í Reykjanesbæ slaga frá 30.000 kr. allt að tæpum 100.000 kr. og er þá ótalinn allur annar kostnaður sem fylgir tómstundaiðkun barna. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort einhver raunveruleg hvatning felist í þessum ,,hvata”greiðslum.


Ofangreindar skerðingar og takmarkanir á þjónustu bæjarins við börn eru að mínu mati óásættanlegar og greinilegt að núverandi meirihluti í bæjarstjórn hefur ekki haft rétta forgangsröðun að leiðarljósi.


Núna er tími til breytinga og ekki seinna vænna.


Látum tímann ekki fljúga frá okkur - setjum X við S og gerum Reykjanesbæ að alvöru fjölskyldubæ!


Ásta Björk Eiríksdóttir
17. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ