Til ópólitískra bréfbera

„Ópólitísk hjón,“ Hrafn og Hulda, sendu út „ópólitískt bréf“ í gær til allra íbúa Reykjanesbæjar með nokkrum spurningum varðandi Hitaveitu Suðurnesja. Þar sem málið hefur fengið mikla umræðu er löngu búið að svara öllum þessum spurningum. Þar sem margar þeirra eru hins vegar svo villandi er nauðsynlegt að svara þeim einu sinni enn. Enda er væntanlega bara tilviljun að þau sendi „ópólitískt“ bréf tveim dögum fyrir kosningar.

Reykjanesbær setur ekki lög, það er gert á Alþingi.


Árið 2008 voru sett lög undir fororði Samfylkingarinnar sem kröfðu Hitaveitu Suðurnesja og önnur orkufyrirtæki um að skipta sér upp í tvö aðskilin fyrirtæki, til að samræmast evrópureglum. Annars vegar HS Veitur sem sjá um þá þætti er snúa að okkur íbúunum, þ.e. heitt og kalt vatn ásamt því að miðla til okkar rafmagni og hins vegar HS Orku sem framleiðir rafmagn og selur á samkeppnismarkaði. Reykjanesbær á 67% í HS Veitum. Það skiptir okkur mjög miklu máli, því þá ráðum við verði á heitu og köldu vatni hér í bænum og flytjum rafmagn inn á hvert heimili. Tryggt er með orkusamningi að innkaupsverð hækkar ekki umfram verðlagsþróun.

„Ópólitísku hjónin spyrja af hverju liggi á að selja HS Orku og hvort eitthvað annað liggi þar að baki?


Bærinn er ekki aðili að þessum viðskiptum. Geysir Green Energy er að selja Magma, þeir einir geta svarað þessu, þetta kemur bænum okkar ekkert við. En líklega snýst þetta um þá fjóra milljarða sem eigendur HS Orku þurfa að leggja út til að borga fyrir nýja túrbínu sem er á leiðinni til að stækka Reykjanesvirkjun og virkja fyrir álverið í Helguvík.

Þau spyrja af hverju íbúar fái ekki að kjósa um söluna sem varði framtíð til 130 ára?


Viðskiptin eru á milli tveggja einkaaðila, bærinn hefur enga aðkomu að þessu, það er ríkisvaldið sem verður að gera það vilji menn það. Leigusamningurinn er auk þess til 65 ára en endurskoðaður eftir 32 ár í samræmi við lög frá alþingi, borin fram af Össuri Skarphéðinssyni. Leigusamningurinn tryggir okkur margvísleg réttindi og við höfum af honum hærri tekjur en áður hafa tíðkast á Íslandi.

Þau segja ekki traustvekjandi að selja fyrirtæki sem kom inn á markaðinn með vafasömum hætti.


Enn og aftur þá er Reykjanesbær ekki að selja neitt. Magma er talið öflugt og traust fyrirtæki, skráð á hlutabréfamarkað í Kanada. Það gerir HS Orku öflugra og tryggir að hægt er að fara í nauðsynlegar framkvæmdir til að byggja upp stór atvinnuverkefni á svæðinu, sem skaffa munu mörg vel launuð störf.

Þeim finnst að stoppa eigi sölu á HS Orku og rannsaka málið.


Stopp á sölunni þýðir líka stopp á virkjanaframkvæmdum. Það er ekkert að því að rannsaka þetta mál, en ekki stoppa nauðsynlegar virkjanaframkvæmdir á Suðurnesjum. Atvinnuleitendur og við íbúar Suðurnesja höfum fengið nóg af biðstöðu ríkisstjórnarinnar.

Magma hefur lýst því yfir að verð til stóriðju sé of lágt.


Flott hjá þeim. Hærra verð þýðir hærra leiguverð á auðlindinni þannig að við bæjarbúar græðum bara á því.

Þau spyrja af hverju fjárfesta lífeyrissjóðirnir ekki í HS Orku?


Já hver skyldi vera ástæðan fyrir því? Jóhanna Sigurðardóttir hefur sagt að þetta sé of stór biti fyrir ríkið. Lífeyrissjóðirnir vilja ekki taka þessa áhættu. Af hverju ætti litli Reykjanesbær þá að gera það ? Er þetta þá gáfuleg fjárfesting? Finnst ykkur, kæru „ópólitísku hjón“ að Reykjanesbær eigi að taka þá áhættu á sig?

Við erum ekki þeirrar skoðunar.

Kæru íbúar - Látum ekki svona rugl spurningar trufla okkur á seinustu stundu. Reisum samfélagið við að nýju með aukinni verðmætasköpun.

Ingólfur Bárðarson og Halldóra Guðmundsdóttir,

rammpólitísk hjón í Reykjanesbæ