Það þarf fólk eins og mig...

Ágæta fólk.
Næsta laugardag er komið að því. Saman ætlum við að velja okkur fólk til að starfa að bæjarmálunum næstu 4 árin. Ég er í hópi þeirra sem bjóða sig fram í verkefnið. Nokkrir hafa spurt mig af hverju ég býð mig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn og svarið er einfalt. Ég hef alltaf haft trú á frelsi einstaklingsins og vil starfa samkvæmt þeirri hugsjón sem flokkurinn stendur fyrir. Þó að kreppuástand ríki þá hef ég enn trú á því að einstaklingsframtakið skili bestum árangri og ríkisvæðingarleiðin sem núverandi ríkisstjórn boðar séu villigötur sem ég óttast verulega. Samfélag þar sem rekstur fyrirtækja hvílir mest á herðum ríkisins og þegnarnir þiggja það sem að þeim er rétt og bíða eftir að stóri bróðir leysi öll mál er algjör stöðnun. Það sem þarf er að virkja alla einstaklinga til góðra verka. Skapa skilyrðin og mynda hvata fyrir starfsemi af öllum stærðu og gerðum. Eitt það mikilvægasta sem við stöndum frammi fyrir er að markaðssetja Reykjanesbæ til búsetu, til atvinnureksturs og að minna stjórnvöld á að bandarískir hermenn eru farnir af Suðurnesjum og eftir sitja Íslendingar sem alltof margir eru án atvinnu.


Aðrir flokkar predika nauðsyn þess að skipta út forystunni og hleypa þeim að í stjórnun bæjarins. Við sjáum að það hefur engu skilað í landsmálapólitíkinni. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ hefur fengið nýja ásýnd og mikið af frambærilegu fólki er að bjóða sig fram í fyrsta skipti. Ég er t.d. í 6. sæti sem er baráttusæti fyrir áframhaldandi meirihluta og langar mig að biðja um ykkar stuðning svo ég megi komast að. Ég er mjög rótgróinn bæjarbúi marga ættliði aftur og hef mikla trú á að ég eigi eftir að koma sterkur inn. Ég er ágætlega menntaður með fína reynslu, er strangheiðarlegur og réttsýnn. Ég lofa því að taka starfsheitið bæjarfulltrúi alvarlega og vera fulltrúi bæjarbúa í þeim verkefnunum sem framundan eru. Það er eina loforðið sem ég legg fram og eina loforðið sem skiptir máli.


Baldur Guðmundsson
skipar 6. sæti á D-lista sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ