Tækifæri handan við hornið

Atvinnuleysi á Suðurnesjum er mikið áhyggjuefni fyrir ungt fólk, þegar atvinnuleysi mælist allt upp í 14- 15%. Þúsundir manna eru án tilgangs sem er mikil hætta. Það að hafa ekki tilgang er tröllaukinn vandi. Að hafa ekki ástæðu til að vakna á morgnana og að sjá ekki tækifæri framundan. Allt of margir eru búnir að vera lengi atvinnulausir. Þó svo fólk reyni að halda reisn sinni dregur af fólki og trúin á framtíðina minnkar smá saman.


Ungt fólk þarf tilgang
Ungt fólk er í mikilli áhættu vegna þessa ástands. Þetta eru þungbærir tímar fyrir ungar fjölskyldur á Suðurnesjum. Ég vona svo sannarlega að ástandið fari fljótlega að lagast. Sveitarfélögin á Suðurnesjum þurftu að þola stærstu hópuppsagnir í sögu þjóðarinnar með brotthvarfi Varnarliðsins á sínum tíma. Engar bætur komu fyrir skerðingu á þorskkvóta á sínum tíma og fiskvinnslufólk hefur verið að missa vinnuna á undanförnum áratugum. Þá þarf ekki að fara í grafgötur með vaxandi erfiðleika verktakafyrirtækja á svæðinu. Þar nægir að fletta í Lögbirtingablaðinu. Það eru þó ýmsar hugmyndir á teikniborðinu og vonandi ná þau verkefni sem eru í pípunum því flugi að þau klárist. Ungt fólk þarf tilgang og trú. Það eru mannréttindi að hafa atvinnu.


Starfsöryggi fylgir álveri
Álver í Helguvík mun örugglega breyta mjög miklu fyrir okkur hér á Suðurnesjum. Þar munu skapast fjölmörg störf, líklega um 500 þegar verksmiðjan er fullbyggð, fyrir utan öll störfin við uppbyggingu verksmiðjunnar. Fyrir okkur er þarna að skapast aukning í framboði af fjölþættum og vel launuðum störfum. Þarfir fyrirtækisins koma til með að lyfta menntunarstiginu á svæðinu, enda þörf á mörgum háskóla- og tæknimenntuðum starfsmönnum. Álverið mun ráða til sín fjölda almennra starfsmanna sem verða sérþjálfaðir, auk starfsmanna eins og rafvirkja, vélvirkja, rafsuðumanna, tæknifræðinga, viðskiptafræðinga, verkfræðinga, sálfræðinga, efnafræðinga og tölvunarfræðinga svo eitthvað sé nefnt. Í boði verða vel launuð störf fyrir bæði kynin, gott starfsumhverfi og síðast en ekki síst stöðugleiki og starfsöryggi sem skiptir sannarlega máli á þessum erfiðu tímum í íslensku samfélagi.


Fjölbreyttir fylgifiskar
Reiknað er með að margfeldi af svona starfsemi sé talsvert mikil og það skiptir þjónustuaðila hér fyrir sunnan miklu máli. Ég hef heyrt að rúmlega 100 fyrirtæki séu að vinna í kringum álverið á Grundartanga og það sama hlýtur að vera uppi á teningnum hérna hjá okkur vegna álvers í Helguvík. Um er að ræða mismunandi þjónustuaðila og iðnfyrirtæki svo sem tölvufyrirtæki, vél- og blikksmiðjur, pípulagningarfyrirtæki, rafverktaka, bifreiðarverkstæði, jarðvinnuverktaka, vélaleigur, trésmiðjur, rannsókna- og ráðgjafastofur, hreingerningarþjónustur, saumastofur, skiltagerð, hótel, veitingahús, flugfélög, bílaleigur, öryggisgæslu og fleira. Þarna verða tækifæri fyrir ungt fólk og okkur ber skylda að huga að slíkum tækifærum.


Framsókn í Reykjanesbæ lofar að leggja sitt afl á vogarskálarnar til að eyða atvinnuleysi í bæjarfélaginu. Blómlegt atvinnulíf er forsenda framfara og uppbyggingar. X-B!


Arnar Magnússon,
4. sæti Framsóknar í Reykjanesbæ.