Svikin loforð

Núverandi meirihluti stóð ekki við orð sín hvað varðar söluna á Hitaveitu Suðurnesja hf, nú HS Orku. Mjólkurkýrin var seld, eins og bæjarbúar orða það. Ég hef enn ekki hitt þann bæjarbúa sem er ánægður með þann gjörning, nema ef til vill örfáa sjálfstæðimenn.


Seldu Hitaveitu Suðurnesja

Sjálfstæðimenn lofuðu fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar 2006 að Hitaveitan yrði ekki seld. Í viðtali við Böðvar Jónsson í Víkurfréttum í aðdragana kosninga, er hann spurður hvort eitthvað sé til í þeim orðrómi að Sjálfstæðimenn hyggist selja hlut Reykjanesbæjar í Hitaveitu Suðurnesja. Hann svaraði, og þetta er bein tilvitnun:


„ Það er algjörlega rangt og við höfum margoft svarað því í bæjarstjórn að það standi ekki til. Við settum það skýrt fram fyrir síðustu kosningar að við myndum standa vörð um hlut okkar í Hitaveitunni og munum væntanlega gera það aftur í kosningabaráttunni nú til að undirstrika það.“ (Víkurfréttum, 15.tbl. 27.árg. 12. apríl 2006. Bls. 20-21).


Treystir þú mönnum sem standa ekki við það sem þeir lofa, að fara áfram með stjórn bæjarfélagsins? Eru þeir trúverðugir?


Framsókn stendur við orð sín. X-B!


Kristinn Þór Jakobsson 1. sæti Framsóknar í Reykjanesbæ