Stöndum saman um það sem skiptir máli

Eitt af mikilvægustu verkefnum sveitarfélaga eru skólamál og stuðningur við tómstunda- og íþróttastarf barna. Vel er staðið að málefnum barna hér í bæ og bæjaryfirvöld vinna að kappi að því að láta ástandið í þjóðfélaginu ekki bitna á börnunum okkar. Það á auðvitað bæði við um starfsemi grunnskóla og leikskóla. Það er mjög mikilvægt að börnunum okkar líði vel.


Undanfarin ár hafa grunnskólar bæjarins verið í stöðugri sókn. Meðal annars hafa þeir verið að ná betri og betri árangri í samræmdum prófum í samanburði við aðra skóla.


Það er líka mjög vel staðið að Íþróttamálum barna í bænum. Aukning er meðal fjölda iðkenda í flestum greinum sem boðið er uppá. Þetta góða starf skilar sér í því að unga íþróttafólkið okkar keppir um flesta þá titla sem eru í boði á landinu og er engin grein þar undanskilin. Skemmtilegt dæmi um samþættingu skóla og íþróttastarfs er góður árangur Heiðarskóla í Hreystikeppninni síðustu tvö ár.


Þessi góði árangur er afrakstur þess að vel er hugað að starfinu strax þegar börnin byrja að æfa og þeim svo vel fylgt eftir. Íþróttahreyfingin hefur unnið mjög gott starf með góðum stuðningi bæjaryfirvalda. Svo má ekki gleyma frábæru sjálfboðaliðastarfi foreldra, en það er til fyrirmyndar í flestum ef ekki öllum flokkum.


Gott starf tónlistarskólans er aðdáunarvert miðað við þann þrönga húsakost sem hann hefur búið við árum saman. Mikill fjöldi fólks á öllum aldri stundar tónlistarnám í bænum þrátt fyrir aðstöðuleysi skólans. Nú styttist í að tónlistaskólinn flytji í nýtt húsnæði , sem gefur þeim tækifæri á enn frekari sókn.


Í mínum huga fer skólastarfið og tómstundastarfið saman. Börnin þurfa góða skóla, þar sem þau eru hvött áfram. Þau þurfa svo tækifæri til að rækta sál og líkama samhliða náminu. Ef okkur tekst að styðja vel við börnin okkar og láta þeim líða vel eru mun minni líkur á að þau lendi í ógöngum í lífinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann er traustsins verður í þessum efnum. Það er því mikilvægt að við getum haldið áfram því góða starfi sem unnið hefur verið.


Þitt atkvæði skiptir máli 29. maí.


Einar Magnússon,
skipar 5. sæti á lista X-D í Reykjanesbæ