Stolt og samstaða

Það er ekki ofsögum sagt að mikið hafi gengið á hér á landi og það er kunnara en frá þurfi að segja að þjóðfélagið allt hefur leikið á reiðiskjálfi. Manni fallast hreinlega hendur þegar maður fylgist með umræðunni í þjóðfélaginu og þeirri heift sem virðist ríkja á milli þeirra sem eru til „hægri“ í stjórnmálum annarsvegar og svo þeirra sem eru til „vinstri“ hinsvegar. Hér berast menn á banaspjótum og brigslyrðin ganga á víxl, menn keppast við að kenna hver öðrum um að hér sé allt farið eða er á góðri leið með að fara til andskotans. Ég er stoltur af því að vera Íslendingur og oft hafa gerst atburðir í lífi okkar þjóðar sem hafa gert mann enn stoltari af því að vera hluti af henni. Stoltastur hef ég þó verið þegar hér hafa átt sér stað hamfarir af náttúrunnar völdum og höggvin hafa verið skörð í okkar litla samfélag. Þá hafa Íslendingar risið upp og sýnt sitt rétta andlit, samstaða þjóðarinnar þegar slíkir atburðir hafa átt sér stað hefur verið stórkostleg. Þess vegna er það svo afskaplega sorglegt að sjá núna þegar þjóðin þarf svo sannarlega á samstöðu og einingu að halda að það er hver hendin upp á móti annarri.


Ábyrgð stjórnmálamanna

Þar bera að mínum dómi stjórnmálamenn þjóðarinnar mestu og stærstu ábyrgðina, fólkið sem við kusum sem fulltrúa okkar og treystum á hefur brugðist okkur algerlega. Fyrir vikið situr hér hnípin þjóð sem hefur ekki hugmynd um hvar hún stendur og þegar einhver veit ekki hvar hann stendur þá hefur sá hinn sami ekki hugmynd um hvert hann er að fara. Við hér í Grindavík höfum ekki farið varhluta af sandkassaleik stjórnmálamanna þvi að það má með sanni segja að bæjarmálapólitíkin hér á þessu kjörtímabili hefur verið ansi skrautleg. Það er ekki við einhvern einn að sakast í þessum málum heldur bera allir flokkar og fulltrúar þeirra ábyrgð á þessum farsa sem bæjarbúum hefur verið boðið upp á og það á þeirra kostnað. Ég lít á starf stjórnmálamannsins þannig hann verði að bera hag allra fyrir brjósti og að honum beri að setja málefni og markmið ofar eigin hag. Gamalt spakmæli segir að „Engin gleði jafnast á við það að starfa öðrum til heilla“ þetta ætti að vera leiðarljós þeirra sem starfa í stjórnmálum.


Breytt viðhorf

Í búsáhaldabyltingunni svonefndu krafðist fólk þess að hér yrðu teknir upp nýir stjórnarhættir og tek ég heilshugar undir það. Ég ligg ekki á þeirri skoðun minni að mér finnst að í bæjarstjórnum eigi ekki endilega að vera meirihluti eða minnihluti. Að mínum dómi eiga allir kjörnir bæjarfulltrúar sama hvar þeir í flokk eru settir að vinna saman sem ein heild og tel ég að með því móti verði komist hjá sérhagsmunapoti og spillingu. Þegar allir sveitarstjórnarmenn eru gerðir jafn ábyrgir fyrir þátttöku og ákvörðunum í stjórnun sveitarfélagsins veita þeir hver öðrum miklu heilbrigðara aðhald. Eftir sem áður munu íbúar kjósa á milli manna og málefna. Þau skipta nefnilega áfram máli. En kannski eykur þetta fyrst og fremst möguleikana á að losna við óábyrga sérhagsmunapotara úr sveitarstjórnunum. Nóg er af þeim samt. Þetta er eitthvað sem ég tel vert að skoða betur og ræða á breiðum grundvelli.


Björt framtíð

Þrátt fyrir að hér hafi mikið gengið á má ekki gleyma þeirri staðreynd að Grindavík er eitt stöndugasta bæjarfélag landsins og hér hefur mikið áunnist á síðustu árum sem við öll getum verið stolt af. Gleymum því ekki, það er skylda okkar allra að halda áfram að byggja upp og viðhalda þessu góða samfélagi sem hér er. Um leið og ég óska ykkur öllum kæru Grindvíkingar gleðilegs sumars vil ég segja að framtíð bæjar okkar er björt að mínu viti og þó að gefi á bátinn munum við með samheldni komast yfir alla þá erfiðleika sem kunna að verða á vegi okkar.


Lifið heil,

Páll Valur Björnsson