Spörum án þess að það komi niður á þjónustunni

Hún er flestum kunn sagan af litlu stelpunni sem eignaðist kettlingana. Þegar hún kom í leiksskólann útskýrði hún fyrir leikskólakennaranum  hve sætir og fallegir kettlingarnir væru.  Þeir hlytu að vera sjálfstæðiskettlingar. Fóstrunni leist vel á skoðanir stelpunnar, og bað hana að segja bæjarstjóranum frá þessu þegar hann kæmi í heimsókn í næstu viku. Vikan leið og bæjarstjórinn kom í heimsókn. Stelpan sagði honum söguna, nema að nú voru kettlingarnir ekki lengur sjálfstæðiskettlingar heldur bara venjulegir  kettlingar.  Leikskólakennarinn  varð svolítið vandræðaleg og spurði hvað hefði breyst. Stelpan svaraði snögglega:  „Sko skilurðu ekki,  þeir opnuðu augun“.

Þannig er það með marga hluti, opni maður augun og sjái veröldina í  ljósi  opnast ný tækifæri og ný staða. Það er  því miður ekki eins og sjálfstæðismenn halda fram í kosningabæklingi sínum að staða Hitaveitu Suðurnesja sé sterk.  Eða að þeir hafi þar efnt þar loforð sitt um að svo yrði. Hitaveita Suðurnesja er hreinlega ekki lengur til. HS var skipt upp í tvö sjálfstæð fyrirtæki. HS Orku  og HS Veitur. Það var gert þvert ofan í óskir íbúanna sem fyrirtækið áttu.

Uppskiptingin á Hitaveitu Suðurnesja er staðreynd, hvort sem okkur líkar betur eða verr.  Það þýðir lítið að syrgja það sem hefði getað orðið, heldur verða menn að vinna úr þeirri stöðu og möguleikum sem nú eru uppi. Og möguleikarnir eru margir í stöðunni.  Þá þurfum við að nýta.

Þau tengsl sem áður voru fyrir hendi og grundvölluðu kaup bæjarins á raforku frá Hitaveitu Suðurnesja  hafa verið rofin.  Því verður ekki breytt.  Orkusöluhlutinn er  nú í annara höndum og rafmagnsreikningar okkar bæjarbúa hefur hækkað  skv. verðkönnun neytendasamtakanna hækkað um rúmleg 26% frá því að uppskiptingin varð.
 
Uppskiptingin og lögin gera nú bænum kleift að leita tilboða í raforku þá sem við þurfum að nota.  Sjálfur skipti ég um orkusala á sínum tíma og veit að sú breyting hefur skilað mér því sem eftir var sóst.

Nú þegar kreppir að hlýtur það að vera keppikefli bæjarins að spara á sem flestum sviðum.  Og helst þar sem sparnaðurinn þarf ekki að hafa nein áhrif.  Komi það í ljós að aðrir aðilar séu tilbúnir til að selja bænum rafmagnið á lægra verði eða HS Orka að  lækka sitt verð verða til peningar sem hægt væri að nota  til eflingar margra þeirra þátta sem undanfarið hafa verið skornir niður.  Börnin í skólum bæjarins gætu hugsanlega fengið eitt og eitt litprentað ljósrit og þannig mætti lengi áfram telja.
 
Þrátt fyrir slæma stöðu bæjarins eins og er þýðir ekki leggjast í eitthvað neikvæðnisraus, leggja aftur augun og láta sig dreyma. Þá gerir maður eins og kettlingarnir, opnar upp augun og sér veröldina í sínu rétta ljósi.  Einungis þannig næst sá árangur sem nú er þörf á.

Með bestu kveðju,
Hannes Friðriksson