Sóknarfæri

Eitt brýnasta verkefni þeirra sem veljast til forystu í komandi sveitastjórnarkosningum felst í því að verja þau störf sem til staðar eru og stuðla að fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu. Þrátt fyrir erfiðleika eru mikil tækifæri til fjölgunar starfa á næstu misserum og árum í Reykjanesbæ. Vextir munu lækka á næstu mánuðum og gefa fyrirtækjum tækifæri til arðbærra fjárfestinga. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar er varða endurgreiðslu á sköttum vegna viðhaldsvinnu eru til þess fallnar að hvetja til slíkra framkvæmda með tilheyrandi atvinnusköpun. Gengi krónunnar er mjög hagstætt öllum þeim sem flytja út vörur. Margt smátt gerir eitt stórt. 

Á suðurnesjum starfa um 2.000 manns við ferðaþjónustu yfir sumarmánuðina. Ferðaþjónustan er samt sem áður mjög ung atvinnugrein á Íslandi og er rétt að byrja að slíta barnsskónum. Hér eru mikil sóknarfæri í atvinnusköpun fyrir Reykjanesbæ. En hver eru þessi sóknarfæri? Reykjanesbær er staðsettur við alþjóðaflugvöll. Farþegar um flugvöllinn fara hinsvegar að mestu framhjá bænum án þess að gefa því gaum að hér er margt áhugavert að gera og skoða. Enn er því mikið starf óunnið við markaðssetningu bæjarins sem spennandi valkost fyrir ferðamenn, jafnt erlenda sem innlenda.

Rannsóknir hafa sýnt að hreint loft, víðerni og óspillt náttúra er það sem helst laðar ferðamenn til Íslands. Reykjanesbær státar af því að hafa á landi sínu eldfjöll, gígaraðir og aðrar jarðmyndanir. Á Reykjanesi má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum en það er hvergi annarstaðar á jörðinni hægt að sjá, nema ef ske kynni á Suðurskautslandinu. Stórbrotin náttúra, nálægð við alþjóða flugvöll, Bláa lónið og höfuðborgina felur í sér tækifæri sem hlúa þarf að og efla.

Fyrir hendi er öll þjónusta verslanir, veitingastaðir, sundlaug, söfn, hótel, gistiheimili, bílaleigur o,fl. Afþreying er fjölbreitt, gönguleiðir sem eiga sér enga hliðstæðu í veröldinni eru innan seilingar. Frábærir leiðsögumenn eru til staðar til að uppfylla óskir hverskonar. Þessi grein er algjörlega vannýtt og næstum ómarkaðssett erlendis og óhætt að segja að ótrúlega miklir atvinnumöguleikar í náinni framtíð í þessum málum án mikils tilkostnaðar. Og það er einmitt lykillinn, án mikils tilkostnaðar. Við þurfum að skapa hér mörg störf en höfum til þess takmarkað fjármagn.

Mjög mikilvægt er að bæjarfélagið komi að málum í samvinnu við fólk sem er með fjölbreyttar hugmyndir um þjónustu við ferðamenn og efli þann sprota. Því miður dagar fólk oft uppi með góðar hugmyndir sem hægt hefði verið að framkvæma með litlum tilkostnaði vegna ónógra undirtekta og stuðnings þeirra sem hefðu getað veitt málinu brautargengi. Ferðamennskan þarf bakland og fagleg vinnubrögð, markvissa markaðssetningu þar sem horft er til nokkurra ára fram í tímann. Mörg afleiðustörf skapast við hverja nýja hugmynd sem kemst á laggirnar. Vinstrihreyfingin grænt framboð vill leyfa þúsund blómum að vaxa, hlúa að því sem fyrir er og sækja þau tækifæri sem við okkur blasa með stóraukinni áherslu á ferðaþjónustuna.

Gunnar Marel Eggertsson,
Oddviti VG í Reykjanesbæ